Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Hefur ekki séð myndina sem hún leikur í

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikkonan Aníta Briem hefur í nægu að snúast þessa dagana en hún leikur eitt af aðalhlutverkunum ásamt Ólafi Darra í nýrri íslenskri þáttaröð sem er í vinnslu. Aníta fer líka með hlutverk í myndinni The Drone sem var frumsýnd á Slamdance-hátíðinni fyrir stuttu og er auk þess að ljúka tökum á mynd sem hún leikur aðalhlutverkið í ásamt Terrence Howard.

Þrátt fyrir að nóg sé að gera hjá Anítu í leiklistinni er tónlistin ekki langt undan og hún viðurkennir að hún hafi verið að semja í leyni.

„Ég er heldur undarleg kisulóra sem velur að eyða lífinu sem einhverskonar listaspíra. Það er oft erfitt, oftar gefandi og aldrei leiðinlegt,“ segir Aníta Briem sem var stödd á uppáhaldsstaðnum sínum, við skrifborðið í vinnustúdíóinu hennar í Los Angeles, þegar Albumm hafði samband.

Á bak við hana er heill veggur af litaglöðum post-it miðum, pælingar fyrir kvikmynd sem hún er að skrifa. Á þessum stað semur Aníta tónlist, stúderar handrit og „masterar“ hæfileika sína og áhugamál í friði. „Maður velur sér ekki að vera í listgreinum nema maður geti ekkert annað, já, nema maður sé masókisti sem ég er örugglega líka, svona pínu pons, en guð má vita af hverju. Maðurinn minn er leikstjóri svo við erum að minnsta kosti bæði sammála um hvað okkur finnst eðlilegt. Er það ekki undirstöðuatriði í hjónabandi? Við eigum saman dótturina Míu, sem er nýorðin 5 ára og er algjör snillingur. Við reynum að halda fjölskyldunni saman og Mía ferðast alltaf með okkur þegar við förum í tökur eða á fundi.“

Ég er heldur undarleg kisulóra sem velur að eyða lífinu sem einhverskonar listaspíra.

Aníta hefur búið í Los Angeles í um 10 ár og segir að vissulega fái hún stundum heimþrá en henni líði best þegar hún er á ferðalagi og þegar hún fær að verja nokkrum mánuðum hér og þar að taka upp myndir. „Ég sakna íslenska fólksins, því ég verð alltaf Íslendingur í kjarnann og aðeins á Íslandi líður mér eins og ég sé heima. Ég hlakka mikið til að koma núna og verja nokkrum mánuðum í tökum á Íslandi og leyfa dóttur minni að fara í íslenskan leikskóla í smátíma. Svo held ég áfram ferðalaginu.“

Spurð út í áhugamálin segir Aníta að leiklistin taki mest af hennar tíma en henni finnist líka gaman að læra. Svo hlusti hún mikið á hlaðvörp sem fjalla um glæpamál, heimspeki, goðafræði og geimvísindi. Tónlistin sé þó ekki langt undan.

„Ég hef verið að búa til tónlist í leyni í nokkurn tíma, svona fyrir sálina. Kvikmyndavinna og -framleiðsla er svoddan maraþon og heill her af fólki fylgir því þannig að það er gott að hafa fundið leið til að koma hlutunum frá sér sem maður getur bara gert einn. En nú er ég að koma út úr hellinum með þetta og vinn með frábærum framleiðendum hér í LA. Kannski gef ég eitthvað út á næstunni.“

- Auglýsing -

Nýjasta myndin sem Aníta leikur í heitir The Drone og var frumsýnd á Slamdance-hátíðinni sem fram fór á dögunum. Í myndinni fer Aníta með hlutverk Corrine, nágrannakonu hjóna sem leikin eru af John Brotherton og Alex Essoe. „Þetta er spennutryllir sem við tókum upp fyrir um tveimur árum og er frekar lítil indie-mynd en ég hef reyndar ekki séð hana. Ætli ég sé ekki eitthvað að draga lappirnar, því þetta er fyrsta myndin þar sem ég var beðin um að vera í bikiní, þó í nafni kómedíu svo það var aðeins skárra.“

Lengri umfjöllun er á Albumm.is

Mynd / Darri Ingólfsson

- Auglýsing -

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -