Jón Ásgeir Jóhannesson athafnamaður hefur rifið olíufélagið Skeljung upp og komið því í góðan hagnað eftir nokkra lognmollu. Þetta er sigur fyrir Jón Ásgeir sem lýsti því að eftir hrun hefði hann verið orðinn nær gjaldþrota. Nú er hann upprisinn og í banastuði.
Móðurfélag Skeljungs, Skel, lætur ekki eldsneytismarkaðinn einan nægja því það teygir anga sína víðar um markaðinn. Nú stefna Jón Ásgeir og viðskiptafélagar hans á stórsókn á dagvörumarkaði með netverslun Heimkaupa. Skeljungur á orðið stóran hlut í Wedo ehf., móðurfélagi Heimkaupa, Hópkaupa og Bland.is. Þarna er Jón Ásgeir á heimavelli en eins og kunnugt er á hann hvað stærstan hlut að baki velgengni Bónuss sem varð á sínum tíma risi á matvörumarkaði undir hans stjórn.
Nýjasta útspil Jóns Ásgeirs er að ráða Grétu Maríu Grétarsdóttur sem framkvæmdastjóra. Gréta María reif gengi Krónunnar upp og kom henni upp að hliðinni á Bónusi. Þá var hún um tíma í stjórnendastöðu hjá Brimi en eftir snertilendingu í ferðaþjónustunni er hún mætt til að gera Heimkaup að stórveldi og það er hrollur í samkeppnisaðilunum …