Hvert sem litið er í miðborg Reykjavíkur má sjá þungvopnaða lögreglumenn og merkta og ómerkta lögreglubíla, vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins sem haldinn er í dag og á morgun. Þá eru leyniskyttur á þaki Hörpu og Seðlabankanum.
Mannlíf skoðaði stemmninguna í miðborg Reykjavíkur í dag en verður henni varla betur lýst en sem súrrelískri. Hvert sem litið var mátti sjá lögreglumenn, suma hverja þungvopnaða með rifla í hönd. Þá voru einu bifreiðarnar í umferðinni lögreglubílar, ómerktir sumir sem og borgarstarfsmenn á sérmerktum bílum. Þá mátti sjá svarta bíla sem einnig voru sérmerktir en bílstjórar þeirra voru í svörtum jakkafötum og alvarlegir á svip. Á þaki Seðlabankans sést í tvær leyniskyttur undir litlu skýli sem var sett upp vegna rigningarinnar í dag. Þá voru tvö svipuð skýli uppi á Hörpu, þar sem leiðtogafundurinn er haldinn.
Við höfnina liggur varðskip Landhelgisgæslunnar og fylgist með sjóleiðinni að Hörpu. Við öll dýrari hótel miðborgarinnar eru þungvopnaðir lögreglumenn og oftar en ekki einnig svartur bíll með svartklæddum mönnum innanborðs.
Mannlíf tók nokkra vegfarendur tali og spurði þá hvernig þau upplifðu stemmninguna.
Páll nokkur sagði að þetta minnti sig svolítið á það er hann heimsótti Kænugarð í Úkraínu árið 2018 en þar var gæslan mjög mikil. „Þetta er svolítið skrítið. Það er mjög sérstakt að það sé búið að loka öllu þó maður skilji það alveg. Ég vona að þetta hafi svo sem góð áhrif en ég er ekki viss. Það er náttúrulega búið að ráðast á vef Alþingis og svona þannig að ég veit ekki hvort þetta sé sniðugt í heildina. Ég var að lesa grein eftir sendiherra Rússa og hann er ekki ánægður. Þannig að ég veit ekki hvort það sé sniðugt endilega að vera að ögra svona mikið þó maður vilji náttúrlega að Úkraína verði alveg frjáls.“
Haukur Ingi Jónsson var á gangi með hundinum Bruno er Mannlíf spurði hann hvernig honum lítist stemmninguna. „Hún er mjög skrítin, sérkennileg, róleg,“ sagði Haukur Ingi og hló. „Rosalega róleg, fólk er svona ráfandi um og margir staðir lokaði af því að það er svo rólegt.“
Hvernig finnst þér að sjá lögregluna vopnaða?
„Skrítið. Hún er rosa mikið vopnuð og þeir eru margir. En þetta er bara af þeirri stærðargráðu að þetta er nýtt fyrir okkur Íslendinga. “
Finnst þér þetta í lagi?
„já, já, maður hefur margoft verið erlendis þar sem eru viðburðir og það eru stórum svæðum lokað og þar standa menn þungvopnaðir og þar eru stórir brynvarðir bílar stundum og svona en manni líður aldrei vel í kringum vopn. Maður vill ekki sjá þau.“
Ung kona sem ekki vildi láta nafn síns getið en hún flutti til Íslands fyrir fjórum mánuðum, frá Þýskalandi. Sagði hún við Mannlíf að henni þætti þetta svolítið skrítið en allt í lagi: „Kannski er þetta haldið hér á landi af því að þetta er hlutlaust land? Að minnsta kosti er betra að halda fundinn hér en í Úkraínu til dæmis.“
Félagarnir Ólafur Karl Kvaran og Emil Alex Ricter ákváðu að taka sér pásu frá próflestri til að kíkja í miðbæinn og sjá allt havaríið með eigin augum. „Mér finnst þetta crazy,“ sagði annar þeirra og hélt áfram. „Við vorum að spyrja nokkrar löggur áðan hvort þeir hafi áður notað svona byssur og þeir sögðu „ekki sjens“ þannig að þetta er pínu súrrealískt, á Íslandi.“ „En þetta er stemmning, það er gaman,“ bætti hinn við. „Það er ekki oft sem eitthvað svona gerist. Þetta er áhugavert. Þetta er svona once in a lifetime dæmi. Við höldum að við höfum sé Macron áðan. Hann er með rosalega stórt nef.“