Lögreglumaðurinn Gísli Jökull Gíslason sendi Oddi Eysteini Friðrikssyni, Odee, tölvupósta með fyrirspurnum vegna heimasíðu sem listamaðurinn setti upp í nafni Samherja. Um er að ræða þá frægu fyrirgefningarbeiðni „We‘re Sorry“. Gísli Jökull sendi fyrirspurnir frá netfangi lögreglunnar en þóttist vera blaðamaður. Heimildin greinir frá þessu og Gísli Jökull gekkst fúslega við því að hafa villt á sér heimildir en þvertók fyrir að athæfi hans fæli í sér lögbrot.
„Það var engin tilraun til að fela þetta neitt,“ sagði Gísli Jökull við Heimildina. Aðspurður um athæfi sitt sagðist hann ekki hafa borið það undir yfirmenn sína hvort honum væri heimilt að vera undir fölsku flaggi. Þá sagðist hann reyndar hafa starfað sem blaðamaður í verktöku. Þegar blaðamaður Heimildarinnar gekk eftir því hvar hann hefði starfað sem slíkur vitnaði hann í aðsenda grein í Morgunblaðinu. Þegar hann var ítrekað spurður um störf sín við blaðamennsku vitnaði hann til timarit.is.
„Flettu mér bara upp á timarit.is,“ svaraði hann blaðamanninum. Halla Bergþóra Björnsdóttir hefur ekki svarað Heimildinni neinu hvað málið varðar.