Starfsmenn veitingahúss í hverfi 105 þurftu að kalla til lögreglu í gærkvöldi vegna einstaklings sem neitaði að yfirgefa staðinn þegar komið var að lokun. Lögregla mætti á svæðið og vísaði viðkomandi út. Í sama hverfi lenti eigandi bifreiðar í leiðinlegu atviki. Búið var að stinga á tvo hjólbarða á bifreiðinni og hann því óökufær. Meintur þjófur var handtekinn í miðbænum eftir að hlutir hurfu inn á hótelherbergi. Maðurinn var látinn gista í fangaklefa lögreglu.
Það voru fleiri þjófar á kreik í nótt og var lögregla kölluð út í tvígang í verslun í Skeifunni vegna þessa. Einn var handtekinn en látinn laus að skýrslutöku lokinni. Í Árbæ neitaði ölvaður einstaklingur að yfirgefa verslun þegar starfsmaður hafði beðið hann um að fara. Lögregla sinnti einnig reglubundnu umferðareftirliti og stöðvaði ökumann sem hafði ekið á rúmlega 150 km/klst. þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.