„Það eru allar skoðanir á því að leigubílstjórar séu sniðgengnir þegar kemur að bótaúrræðum stjórnvalda. Við leigubílstjórar erum ekki reiðir en upplifum svolitla mismunun, það verður að segja það. Þetta er talsvert ósanngjarnt,“ segir Daníel Orri Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama.
„Bílstjórar eru óþolinmóðir og vilja fá svör.“
Sökum þess að leigubílstjórar eru flestir sjálfstæðir atvinnurekendur sem halda úti rekstri á eigin kennitölu virðast þeir illa passa inn í hlutabótaúrræði stjórnvalda vegna COVID-19. Útilit er fyrir að aðeins örfáir leigubílstjórar hafi fengið vilyrði fyrir hlutabótaleið stjórnvalda. Flestir þeira virðast aftur á móti hafa fengið höfnun frá Vinnumálastofnun. Forstjóra stofnunarinnar þykir leitt að hafa ekki getað aðstoðað leigubílstjórana betur á meðan faraldurinn hefur gengið yfir.
Falla illa að regluverki
Daníel Orri bendir á að leigubílstjórar hafi flestir orðið fyrir 80 til 90 prósenta samdrætti síðustu mánuði. Aðspurður hvort urgur sé í leigubílstjórum vegna málsins segir hann það alveg ljóst og segir það mjög leiðinlegt því bílstjórarnir hafi sinnt mikilvægri þjónustu á COVID-tímum. „Bílstjórar eru óþolinmóðir og vilja fá svör. Við höfum þurft að halda úti rekstri í framlínunni vegna COVID og fyrir fólk í neyð og það höfum við gert alfarið á eigin kostnað. Við höfum verið til staðar í þágu almennings. Þarna er vandi sem við höfum bent á og liggur á að leysa,“ segir Daníel Orri.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnnunar, staðfestir vandann og bendir á að stofnunin starfi aðeins eftir settur reglum sem hafi orðið til þess að leigubílstjórar falli utan úrræðanna. „Þetta er alveg rétt hjá þeim, þeir falla mjög illa inn í regluverkið og við getum ekkert annað gert en starfað eftir því. Við getum því ekki breytt neinu þótt okkur þyki eitthvað ósanngjarnt fyrir þennan hópinn eða hinn,“ segir Unnur.
Taka lán til að keyra áfram
Aðspurður segir Daníel Orri það því miður ekki möguleika fyrir flesta bílstjóra að skila inn leyfunum tímabundið því þeir séu skuldbundnir til að halda úti rekstri vegna niðurfellingar vörugjalda á bifreiðum þeirra. „Sú leið að leggja inn leyfið gengur ekki. Af því við höfum verið til staðar í almannaþjónustu þá eru skilaboðin sem við fáum frekar slæm, að hafa ekki þennan öryggisventil eins og aðrir. Bílstjórar ganga margir á eigin sjóði, nýta yfirdráttarheimild eða taka lán í bönkum til þess að geta haldið rekstrinum áfram. Staðan eins og hún er núna er ekkert sérstaklega jákvæð en við búumst við því að geta fengið einhvern stuðning eins og aðrir,“ segir Daníel Orri.
Unnur segir að þónokkrir leigubílstjórar hafi leitað til stofnunarinnar undanfarið og segir leitt að hafa ekki getað hjálpað þeim betur. „Þetta er vandamál, þetta er það. Mér finnst það mjög leitt en þannig eru bara lögin og reglurnar. Hvað leigubílstjórana varðar hafa þeir viljað halda áfram vinnu þrátt fyrir mikinn samdrátt og ég skil vel þá stöðu. Ég átta mig á því að þarna hefur verið ákveðinn ómöguleiki í gangi en þetta fer vonandi að verða búið núna,“ segir Unnur.
Lestu allt um málið í Mannlífi.