Gestur Sjóarans að þessu sinni er Anna Kristjánsdóttir, vélfræðingur. Anna var til sjós í 25 ár en nýtur lífsins í dag á Tenerife eins og lesa má í daglegum dagbókarfærslum hennar á Facebook sem hefur notið mikilla vinsælda lesenda.
Anna ólst upp við fátækt og óreglu og bjó um tíma með fjölskyldu sinni í Höfðaborg í Reykjavík. Hún byrjaði snemma á sjó, en fjórtán ára fékk hún vinnu sem svokallaður hálfdrættingur á skipi frænda síns. „Ég byrjaði til sjós vorið 1966 hjá Pétri Þorbjörnssyni, móðurbróður mínum sem var skipstjóri þá á Jóni Þorlákssyni.“ Þar var hún um sumarið en um haustið tók hún landspróf, sem hún sagði hafa gengið með „ósköpum“.
„Ég held persónulega að staða mín í þjóðfélaginu hafi ekki verið það beysin á þessum tíma að það hafi verið talið æskilegt að krakkar af Höfðaborginni væru að fara í eitthvað langskólanám.“
Þú fannst fyrir því?
„Ekki fyrr en í þessu landsprófi. Það var sama hvað ég sagði eða gerði, þá var ég send til skólastjórans, sama hvað gekk á. Svo gerðist það skömmu fyrir áramótin að það voru nokkrir fjórðu bekkingar sem röðuðu sér á Volkswagen. Ég horfði á þetta, ég viðurkenni það alveg. Þeir drösluðu bílnum þversum upp á gangstéttinni, þetta var Gaggó Vest sem þá var í Vonarstræti. Og þeir færðu hann á milli Iðnó og steingarðs sem var á bakvið. Og þannig sat bíllinn það sem eftir var dagsins. Morguninn eftir var ég kölluð til skólastjórans og mér var kennt um þetta. Að hafa fært bílinn, sennilega einsömul, upp á gangstétt. Og eftir að þetta var búið að ganga á allt haustið, að það var sífellt verið að senda mig til skólastjórans, oft fyrir engar sakir, ég átti kannski einhverja sök í einhverjum tilfellum en oft fyrir engar sakir. Þá hreinlega gafst ég upp. Og hætti og fór til sjós.“
Þáttinn má sjá í heild sinni hér á efnisveitu Mannlífs.