Á dögunum var sagt frá því í fréttum að lögregluyfirvöld í Berlín hefði hafið rannsókn á Roger Waters úr Pink Floyd vegna þess að hann klæddist einhversskonar nasistabúningi á tónleikum þar í borg. Rithöfundurinn Helgi Ingólfsson bendir á að Roger Waters hafi gert þetta í áratugi og að um sé að ræða ádeilu, sem samfélög á árum áður áttu auðveldara með að lesa í en samfélög nútímans.
Í færslu á Facebook, sem vakti gríðarlega athygli, fer Helgi yfir málið og segir að samfélagslegur veruleiki hafi breyst frá því að Waters stóð á Potsdamer Platz í berlín árið 1990, í sama búningi og á dögunum með nokkurnveginn sömu táknmyndaumgjörð, án þess að yfirvöld gerðu nokkuð. Segir Helgi að tvennt hafi breyst frá þeim tíma. Annars vegar vaxi bókstafsskilningur sífellt og „síminnkandi skilningur almennings á hvers kyns ádeilur, ádrepur, paródíur og satírur.“ Og annars vegar það að stjórnvöld nýta sér nú þessa fáfræði almennings til að auka völd sín og minnka rétt listamanna til tjáningar. Þá skýtur Helgi föstum skotum á Ríkisútvarpið fyrir að birta gagnrýnislitla frétt af rannsókninni á Roger Waters. Lætur hann hlekk á frétt Rúv um málið fylgja færslunni og segir að fyrirsögnin ætti frekar að vera: „RUV er gagnrýnislítill bókstafstrúarfjölmiðill sem framreiðir fréttir án skilnings á þjóðfélagsádeilu – jafnan að því marki að sé stjórnvöldum þóknanlegt, sem og ríkjandi rétttrúnaðarhugsun.“
Færsluna má lesa hér í heild sinni:
„Sumarið 1990, um hálfu ári eftir fall Berlínarmúrsins, stóð Roger Waters úr Pink Floyd fyrir stórtónleikum með flutningi á „The Wall“ á Potsdamer Platz í Berlín, en þarna hafði áður verið einskismannsland nærri hinum fallna Berlínarmúr. Um 350 þúsund manns eru taldir hafa hlýtt á tónleikana og hundruð listamanna komu fram. Öll táknmyndaumgjörð tónleikanna var í megindráttum sú hin sama og í dag. Þá voru einnig í gildi sömu lög í (Vestur-) Þýskalandi og gilda enn, um að ekki mætti birta ytri táknásýnd nasisma , en ekki sáu (vestur-) þýsk stjórnvöld ástæðu til að fjargviðrast yfir tónleikunum, enda skildu þau mætavel satíruna og paródískt og pólitískt gildi verksins.