Ásta Sigríður Fjeldsted, forstjóri Festis, hefur svo sannarlega tekið til hendinni frá því hún tók við starfi sínu í kjölfar þess uppgjörs sem varð þegar Eggert Þór Kristófersson forstjóri var látinn taka pokann sinn þrátt fyrir velgengni. Hann var látinn fara í kjölfar þess að stjórnarmenn og eigendur tengdust pottamálinu fræga í Borgarfirði sem Vítalía Lazareva sagði eftirminnilega frá. Hann þótti sýna Vítalíu skilning í málinu.
Nú hefur Ásta rekið tvo af framkvæmdastjórum samstæðunnar sem rekur N1, Krónuna og Elkó. Þannig fengu Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1, og Kolbeinn Finnsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs, að fjúka. Ýmir Örn Finnbogason var ráðinn framkvæmdastjóri N1 í hans stað.
Ásta þykir vera ákveðin og hörð í horn að taka. Hún mun þó þurfa á öllu sínu að halda í slagnum við Bónus sem er helsti samkeppnisaðilinn. Því er spáð að hún eigi eftir að marka sín spor eftirminnilega í viðskiptalífinu á næstu árum. Hún er aðeins rúmlega fertug og á framtíðina fyrir sér …