Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.8 C
Reykjavik

Brynhildur Lára fékk óskina uppfyllta og Gísli Marteinn var í áfalli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gísli Marteinn er ekki samur maður eftir heimsókn til Garðabæjar. Brynhildur Lára er hins vegar himinlifandi og skilar kveðju til allra vina sinna. Þau áttu nokkuð misjafna viku.

Góð vika – Brynhildur Lára
„Ég er svo heppin,“ voru þau orð sem Brynhildur Lára Hrafnsdóttir, ellefu ára stúlka, lét falla í vikunni þegar hún sá loks fram á að geta keypt sérútbúinn bíl fyrir hjólastól sem hún notar. Á samfélagsmiðlum hafði Lára óskað eftir 500 krónum „sem fólk væri hætt að nota“ til kaupanna og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Þegar Lára kom heim eftir helgardvöl á hvíldarheimili fékk hún þau gleðitíðindi að 2.941 fimm hundruð krónu seðlar hefðu safnast á reikningi hennar og gott betur, sem dygðu til að kaupa bílinn. Í samtali við Mannlíf sagði móðir Láru að dóttir hennar væri himinlifandi. „Að sjá barnið sitt gleðjast, sérlega þegar maður hefur allt of oft séð það þjást, er miklu miklu meira en ómetanlegt,“ sagði hún, en Lára er með sjaldgæfan ólæknandi erfðasjúkdóm sem veldur því að hún þarf að nota hjólastól og kemur bíllinn til með að auðvelda henni lífið. Kom móðirin á framfæri djúpstæðu þakklæti dóttur sinnar: „Lára vil skila kveðju til allra sinna góðu vina og þakkar þeim þúsund-milljóntrilljónfalt.“

Slæm vika – Gísli Marteinn
Fjölmiðlamaðurinn geðþekki Gísli Marteinn Baldursson rataði heldur betur í ógöngur í vikunni þegar hann gerði sér ferð til Garðabæjar. Gísli þurfti að fara með Tinna hundinn sinn til dýralæknis og varð fyrir menningaráfalli þegar í ljós kom að hann virtist hvergi geta fengið sér morgumat og kaffi á meðan hann beið. Gísli greindi frá þessu á Twitter og fékk í kjölfarið þó nokkrar ábendingar frá hjálpsömum netverjum og uppástungur um staði sem hann gæti farið á, en þeir reyndust ýmist vera lokaðir eða of langt í burtu að mati Gísla. Stungu netverjar þá upp á Hafnarfirði, þangað væri stutt að fara, en sú hugmynd virtist heldur ekki eiga upp á pallborðið hjá borgarskipulagsfræðingnum, sem féllst reyndar á að þar væru líklega ýmsir góðir kostir, en lélegar ákvarðanir hefðu verið teknar í borgarskipulagi bæjarins. Gísli, sem hefur oft grínast með að í Vesturbænum sé borgarlífið best, var augljóslega full alvara því hann greindi svo frá því að hann hafi endað á því að taka strætó aftur til Reykjavíkur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -