Læknar um allan heim óttast hraða dreifingu lífshættulegrar veirusýkingar sem kölluð er Human metapneumovirus eða HMPV. Einkenni veirunnar eru svipuð Covid og inflúensu en getur reynst einstaklingum í áhættuhópum lífshættuleg.
„Þetta er ein af þremur algengustu veirusýkingum sem við sjáum í börnum og öðrum áhættuhópum sem liggja alvarlega veik á sjúkrahúsi. Vírusinn dreifist hratt og veldur alvarlegum veikindum og jafnvel dauða hjá öldruðum, börnum og þeim sem eru með bælt ónæmiskerfi, “ segir bandaríski barnalæknirinn John Williams.
Mikil aukning hefur verið á greiningu veirunnar síðustu ár og er hún orðin álíka algeng og RS vírusinn. Einkenni hennar eru nefrennsi, hálsbólga, hósti og hæsi. Í alvarlegri tilfellum geta einkenni verið erfiðleikar með andadrátt, lungnabólga og berkjubólga. Algengast er að fólk nái fullri heilsu á viku.
Almennt er mælt gegn því að umgangast einstaklinga í áhættuhópum þegar flensulík einkenni eru til staðar.