Nokkuð rólegt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt dagbók hennar.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Tveir þeirra voru ekki með gild ökuréttindi.
Maður var handtekinn vegna hótana en talið var að hann hefði verið með vopn. Ekkert vopn fannst þó á vettvangi en málið er í rannsókn.
Fjórar tilkynningar um líkamsárásir bárust úr miðbæ Reykjavíkur í nótt og eru málin í rannsókn.
Lögregan sem sinnir Hafnarfirði og Garðabæ stöðvaði tvo ökumenn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis. Þá er sama lögregla að rannsaka eitt heimilisofbeldismál.
Lögreglustöð 3, sem þjónustar Kópavog og Breiðholt barst tilkynning um furðulegt aksturslag en lögreglunni tókst ekki að finna bílinn. Sjúkralið var aðstoðað í útkalli og einn ökumaður var stöðvaður fyrir að keyra of hratt og reyndist hann vera án ökuréttinda eftir sviptingu.
Einn ökumaður var stöðvaður af lögreglu frá stöð 4, sem starfar í Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ en reyndist hann vera undir áhrifum áfengis. Þá er líkamsárás þar rannsökuð sem heimilisofbeldi.
Aukreitis barst tilkynning um umferðaslys en þá hafði hlaupahjóli verið ekið á bifreið en meiðslin voru minniháttar. Að lokum var tilkynnt um eignarspjöll á hurð en sá sem tilkynnti taldi sig vita hver skemmdarvargurinn væri.