Töluverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt.
Í miðborginni var bifreið veitt athygli við hefðbundið umferðaeftirlit en ökumaðurinn komst undan lögreglunni. Bifreið hans fannst mannlaus og í lausagangi skammt frá. Vegfarandi benti lögreglumönnum á vettvangi að hinn grunnsamlegi ökumaður hafi hlaupið inn í garð skammt frá og komist undan lögreglu.
Lögreglan stöðvaði bifreið í miðbænum við hefðbundið umferðaeftirlit en hún reyndist vera með fjögur nagladekk. Var ökumaðurinn sektaður og vettvangsskýrsla skrifuð um málið.
Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna aðila sem féll í jörðina og var með áverka á höfði. Var aðilinn fluttur á slysadeild til frekari aðhlynningar. Í Laugardalnum barst tilkynning um ölvuð ungmenni.
Lögreglustöð 3, sem þjónustar Kópavog og Breiðholt, barst tilkynning um ungmenni sem stunduðu það að þeysa framhjá húsnæði tilkynnanda, á rafskútu og kasta grjóti í rúðu húsnæðisins. Sagði tilkynnandinn þau gera þetta trekk í trekk. Engan var hins vegar að sjá er lögreglu bar að.
Í hverfi 110 barst tilkynning um íkveikju.
Í Garðabæ barst tilkynning um líkamsárás en gerandanum var haldið á vettvangi og var hann hirtur af lögreglu.
Lögreglan frá lögreglustöð 4, sem þjónustar Grafarvog, Árbæ og Mosfellsbæ, stöðvaði ökumann í akstri, grunaðan um ölvun við akstur og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Reyndist ökumaðurinn einnig vera sviptur ökuréttindum. Var hann handtekinn og er málið í hefðbundnu ferli hjá lögreglunni.
Í Grafarvogi barst tilkynning um nágrannaerjur en í hverfi 116 kviknaði í iðnaðarhúsi. Sjúkralið boðað á vettvang ásamt lögreglu. Engar upplýsingar bárust um slys á fólki.