Hælisleitandi sem bíður eftir að umsókn hans sé afgreidd fær átta þúsund krónur á viku í framfærslu frá íslenskum yfirvöldum.
Athugasemdarkerfi fréttamiðlanna eru oftar en ekki full af staðhæfingum sem ekki standast skoðun. Slíkt á mjög við þegar fréttir birtast af hælisleitendum og flóttafólki. Þar hefur oft verið fullyrt að fólk sem hingað kemur, oft á tíðum frá stríðshrjáðum löndum eða löndum sem treður á mannréttindum þegna sinna, fái frítt fæði, húsnæði og framfærslu. Að hælisleitendur hafi það mun betra en fátækir Íslendingar.
Staðreyndirnar
Mannlíf skoðaði málið og komst að þeirri niðurstöðu að þessar staðhæfingar eru rangar, að mestu leyti.
Vinnumálastofnun svaraði nokkrum spurningum Mannlífs en sú stofnun aðstoðar einstaklinga og fjölskyldur sem hingað koma í leit að betra lífi. Meðan einstaklingur bíður eftir að umsókn hans sé afgreidd af yfirvöldum, er hann það sem kallast „umsækjandi um alþjóðlega vernd“. Lögum samkvæmt hefur slíkur umsækjandi margvísleg réttindi og rétt á þjónustu frá Vinnumálastofnun meðan á afgreiðslu umsókna þeirra hjá Útlendingastofnun stendur. Slík afgreiðsla getur tekið frá nokkrum mánuðum og upp í sirka tvö ár í kerfinu.
Vinnumálastofnun útvegar meðal annars húsnæði og grunnþjónustu fyrir umsækjendur. Grunnþjónustan felst þar með talin vera framfærsla, læknisaðstoð, skólaganga og almenningssamgöngur innan sveitarfélags.
En hvernig húsnæðiskost býðst umsækjendum um alþjóðlega vernd?
Svar Vinnumálastofnunar: Búsetuúrræðin á vegum Vinnumálastofnunar eru mismunandi eftir því hvort um einstaklinga, pör eða fjölskyldur er að ræða. Einstaklingar deila í flestum tilflellum herbergi með öðrum af sama kyni. Fjölskyldur eru annaðhvort í sérherbergjum eða í íbúð. Búsetuúrræðin eru umsækjendum um alþjóðlega vernd þeim að kostnaðarlausu ef þau dvelja í búsetuúrræði á vegum Vinnumálatofnunar.
Hversu lengi fá umsækjendurnir aðstoð frá ríkinu eftir að þau koma til landsins?
Svar Vinnumálastofnunar: Þau fá aðstoð eins lengi og umsókn þeirra um alþjóðlega vernd er til afgreiðslu. Fái viðkomandi jákvæða niðurstöðu eiga þeir rétt á þjónustu í allt að átta vikur eftir niðurstöðu en fái viðkomandi synjun fellur réttur til þjónustu niður eftir 30 daga nema tilteknar undanþágur eigi við.
En skoðum framfærslurnar betur.
Einstaklingur á rétt á 8.000 krónum á viku í framfærslu, sem gerir 32.000 krónur á mánuði.
Hjón eða sambúðarfólk fær 13.000 krónur á viku eða 52.000 krónur á mánuði.
Barn fær 5.000 krónu á viku eða 20.000 krónur á mánuði.
Fjölskylda fær aldrei meira en 28.000 krónur á viku, sama hversu stór hún er. Það gerir 112.000 krónur á mánuði.
Niðurstaða
Fólk sem flýr stríð eða aðrar hörmungar í heimalandi sínu og sækir um alþjóðlega vernd á Íslandi fær vissulega að búa í fríu húsnæði en einstaklingar deila þá herbergjum með öðrum og fjölskyldur fá annað hvort sérherbergi til að búa í eða íbúð en aðeins á meðan þau bíða eftir afgreiðslu umsóknar sinnar.
Það fær strætókort.
Það fær framfærslu sem nánast ógjörningur er að lifa á, í einu dýrasta landi heims.
Fólkið fær læknisþjónustu og börnin fá að ganga í skóla. Varla getur nokkur sett sig upp á móti því, eða hvað?
Sem sagt, hælisleitendur á Íslandi fá tímabundinn húsnæðiskost, frítt í strætó, örlitla framfærslu svo þeir deyji ekki úr hungri, læknaþjónustu og skólagöngu fyrir börnin.