Enn hefur ekkert spurst til Sigrúnar Arngrímsdóttur sem leitað er á Suðurnesjum.
Samkvæmt upplýsingum Mannlífs hefur lögreglan á Suðurnesjum, nú notið aðstoðar björgunarsveita við leitina að Sigrúnu Arngrímsdóttur en lýst var eftir henni í fyrradag.
Sigrún, sem er fædd 1971, er talin hafa verið á ferð um Suðurstrandarveg helgina 9 til 11. júní síðastliðinn. Var hún klædd í svarta skó, dökkar gallabuxur og svarta hettupeysu. Hún er dökkhærð.
Lögreglu barst tilkynning um yfirgefna bifreið við Suðurstrandarveg þann 12. júní. Hefur henni verið leitað frá hádegisbili þann 13. júní, af björgunarsveitum án árangurs, frá landi og úr lofti. Segir lögreglan í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla rétt í þessu, að litlar vísbendingar hafi borist um hvar Sigrún gæti verið en verið er að endurskipuleggja leitarsvæðið og leit mun halda áfram.
Lögreglan ítrekar að ef einhver hefur upplýsingar um ferðir hennar að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 444 2299 eða neyðarlínuna 1-1-2.