- Auglýsing -
„Goðsögn er fallin frá,“ skrifar Björn Þorláksson, fyrrverandi ritstjóri, um Ámunda Ámundason sem lést þann 14 júní, 78 ára að aldri. Ámundi fæddist 14. maí árið 1945.
Ámundi var þekktur sem útgefandi og umboðsmaður margra af þekktustu hljómsveitum Íslendinga. Á seinni tíma starfsferils síns var hann blaðaútgefandi og auglýsingastjóri. Hann þótti vera einstaklega laginn sölumaður. Björn rifjar upp þegar hann ritstýrði Akureyri vikublaði, sem Ámundi gaf út. Þá gustaði stundum.
„Háskinn dansaði sannarlega stundum skottís með gleðinni. En afköstin, maður lifandi! Hæfileikar meistarans að selja vöru! Og húmorinn – þótt ekki væri hann allra.
Ég hefði aldrei náð svo lengi að ritstýra Akureyri vikublaði, sem eitthvert stóru blaðanna lýsti í heilsíðuúttekt á gósenárunum, sem „harðasta héraðsfréttablaði landsins“, ef við Ámi hefðum ekki endalaust átt skap saman. Hann bakkaði mig 100% upp í ritstjórnarstefnunni. Hann sagði mér frá hótunum stórra auglýsenda, sem vildu rifta samningum þegar Akureyri vikublað hugðist fjalla með gagnýnum hætti um þá eða fólk sem stóð þeim nærri. En það hafði aldrei áhrif á umfjöllunina. Við Ámi hvikuðum hvergi. Aldrei. Eldveggurinn milli auglýsinga og ritstjórnar var alheill,“ skrifar Björn.
Birgir Gunnlaugsson tónlistarmaður tekur í sama streng. Ámundi var um tíma útgefandi hans.
„Takk fyrir samfylgdina Ámi minn, þú ert ógleymanlegur hluti af ævintýrinu. Innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda. Eigið sem yndislegastan dag,“ skrifar hann á Facebook.
Pétur Már Ólafsson bókaútgefandi lýsti sölumanninum Ámunda vel í minningarorðum.
„Elskarðu mig ekki lengur?“
„Ég hitti aldrei Ámunda Ámundason en hann hringdi oft í mig eins og aldagamlan vin og bauð okkur að auglýsa í einhverju af þessum héraðsfréttablöðum sem hann gaf út og voru „gríðarlega mikið lesin“. Verðið var alltaf svo lágt að hann gat eiginlega ekki sagt það upphátt (að eigin sögn). Ef ég beit á öngulinn kom gjarnan viðbótartilboð „með leyfi fundarstjóra“ um að auglýsa í blöðum í enn fjarlægari hlutum landsins fyrir „eiginlega ekki neitt“. Ég reyndi yfirleitt að verjast fimlega en fékk þá spurninguna: „Elskarðu mig ekki lengur?“ Að símtali loknu var ég yfirleitt skælbrosandi, jafnvel flissandi, og hvort sem auglýsingarnar skiluðu einhverju eða ekki gáfu þessi símtöl lífinu sannarlega lit og voru þannig hverrar krónu virði,“ skrifar Pétur Már.