Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-3.3 C
Reykjavik

Ríkisstjórnin hangir á bláþræði: „Það eru ekki allir hamingjusamir í þessu hjónabandi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins hefur síðustu daga beðið hnekki en er líklegt að stjórnin springi?

Mannlíf ræddi við stjórnmálafræðingana Stefaníu Óskarsdóttur og Grétar Þór Eyþórsson um stöðu ríkisstjórnarinnar eftir að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra kom óvænt á hvalveiðibanni á dögunum sem gildir í allt sumar. Stuttu áður hafði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra verið harðorður gagnvart stöðu hælisleitenda hér á landi en hann sagði þingið hafa brugðist í útlendingamálum.

Þetta róast

Stefanía er ekki á því að ríkisstjórnin sé sprungin.

„Nei, ég tel það ekki. Þó að það hafi verið einhverjir skjálftar síðustu daga þá held ég að þetta róist nú aftur. En þetta er auðvitað bara mitt mat, ég get ekkert fullyrt um þetta. Það er mín trú að þó að það hafi verið einhver skjálfti við ráðherraskiptin um daginn og Jón Gunnarsson verið ósáttur að þurfa að yfirgefa ríkisstjórnina, þá róist þetta.“

Aðspurð út í ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur að banna hvalveiði tímabundið og viðbrögð við því sagði Stefanía: „Það eru auðvitað einhverjir í öllum flokkum sem vilja róa á önnur mið en ég held að það sé ekki áhugi fyrir því hjá forystumönnum ríkisstjórnarflokkanna. Ég held að þeir reyni að róa þetta niður.“

- Auglýsing -

Mannlíf spurði Stefaníu hvað þyrfti að gera ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn myndu ákveða að ýta Vinsti grænum úr stjórn og fá aðra að borðinu.

„Það þarf ekkert að rjúfa þing eða neitt slíkt. Það hefur svo sem gerst að ríkistjórnarmeirihluti hafi breyst á miðju kjörtímabili án þess að það hafi verið kosningar. En ég held að þetta sé afar ólíklegt. Þessi ríkisstjórn var mörkuð til þess að ná sátt svona heilt yfir. Jón Gunnarsson var í viðtali í Dagmálum sem ég hlustaði á, þar var hann að hvetja til þess að ríkisstjórnarsamstarfinu yrði slitið eða að minnsta kosti að fólk myndi hugsa sinn gang í sumar en svo dró hann úr öllu saman og taldi það kannski óábyrgt, sérstaklega í ljósi þess að kjarasamingar verða lausir og ýmislegt í uppnámi. En flokkarnir eru líka að láta finna fyrir sér og svona reyna að skapa sér stöðu og ná sínum málum fram.“

Að lokum spurði Mannlíf Stefáníu út í grein Kristjáns Loftssonar hvalveiðimann og Sjálfstæðismann í Morgunblaðinu í dag þar sem hann kallar Svandísi Svavarsdóttur „öfgafullan kommúnista“.

- Auglýsing -

„Kristján Loftsson er auðvitað bara hagsmunaaðili og hefur mikilla hagsmuna að gæta og þetta er í sjálfu sér stórmál fyrir fólk á Akranesi og þá sem stóla á þessar tekjur. En þetta bann kemur með svakalega skömmum fyrirvara, þessi ákvörðun. Einkennilega stuttum fyrirvara. En það eru ekki allir hamingjusamir í þessu hjónabandi, held ég en mín tilfinning er sú að það er búið að ríkja svo mikið traust á milli forristumanna ríkisstjórnarflokkanna, Bjarna, Katrínar, Sigurðar Inga og Lilju, að þau vilja halda þessu áfram. Og ég held að þeir finni út úr þessu. En svo veit maður ekki hvað gerist seinna, eftir einhverja mánuði eða einhvern tíma, þetta eru alveg tvö ár í viðbót.“

Erfitt að segja til um

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðiprófessor við Háskólann Á Akureyri var ekki eins viss með líf ríkisstjórnarinnar.

„Sko, það er mjög erfitt að segja til um það en það er margt sem bendir til þess átök séu að magnast upp. Manni virðist bara sem Svandís sé að koma með ákveðið svar við því sem Bjarni lét heyra frá sér á mánudaginn. Ég les það þannig.“

Aðspurður hvort hann teldi að Svandís hefði haft samráð við Katrínu Jakobsdóttur áður en hún tók hina umdeildu ákvörðun sagðist Grétar Þór ekki þora að segja til um það. „Hins vegar hefur maður tekið eftir því að það var algjör þögn í gær meðal þingmanna allra flokka þannig að það virðist vera sem það hafi verið eitthvað þaggaði niður í kommentum í gær. Svo vitum við ekki hvað verður, hagsmunaaðilar funda.“

Varðandi gífuryrta grein Kristjáns Loftssonar í Morgunblaðinu í dag sagði Grétar Þór: „Já, já, eðlilega, það mátti nú alveg búast við því. En auðvitað virðist Svandís vera að rétta kúrsinn gagnvart ansi mörgum í sínum flokki, með þessu útspili. En það er alveg ljóst að það er að koma upp á yfirborðið meiningarmunur og stefnumunur með mun harkalegri hætti en verið hefur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -