„Ég er í liði með hvölunum. Þeir eru stærstu og mikilfenglegustu skepnur jarðarinnar og það er grundvallaratriði ef maðurinn á að lifa af endalausa kapítalíska rányrkju á auðlindum, að við segjum stopp á þessum stað.“ Svona byrjar færsla Þórs Saari sem hann birti í Facebook-hópi Sósíalistaflokksins.
Í raun er færslan ein stór stuðningsyfirlýsing Þórs við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra vegna tímabundna bannsins sem hún lagði á hvalveiðar á dögunum. Segist Þór hafa mikla reynslu af siglingum í gegnum árin og hafa séð „allar stærðir og gerðir af hvölum við alls lags æfingar og leiki“ og segir þá „einfaldlega stórkostleg dýr“. Þá minnist hann þess er Íslendingar drápu síðasta geirfuglinn og segist vona að leikurinn verði ekki endurtekinn varðandi langreyðurnar.
Hér má lesa restina af færslunni:
„Ég hef siglt um heimshöfin sjö og séð allar stærðir og gerðir af hvölum við alls lags æfingar og leiki og þeir eru einfaldlega stórkostleg dýr, og sú hugsun að aldrei aftur muni steypireyður eða langreyður stökkva svo hún hreinsi allan skrokkinn af vatni er óbærileg.
Íslendingar útrýmdu geirfuglinum vegna þess að danskur kaupahéðinn vildi einn soleiðis, síðasta gerifuglinn. Það er nægilega svartur blettur á okkur svo við förum nú ekki að endurtaka leikinn og þótt langreyðurin hér við land sé ekki í útrýmingarhættu þá er hún það víða, og það er bara líka falleg yfirlýsing að við séum hætt hvalveiðum.
Vissulega missa einhverjir af tekjum í tvo til þrjá mánuði og það er leitt, en það eitt og sér er ekki nægileg ástæða til þess að halda þessari vegferð áfram.
Hvalveiðiskip eru falleg, hvalveiðimenning er merkileg, stórmerkileg, og ein fegursta bók allra tíma, Moby Dick er alveg einstök (á frummálinu sko), en það hefur allt sinn tíma og tími skynsemi er vonandi runninn upp varðandi hvalveiðar.
Takk fyrir kjarkinn Svandís Svavarsdóttir, um hina þarf ekki að fjölyrða.“