Samfélagsrýnirinn stóryrti, Björn Birgisson veltir fyrir sér næstu skrefum ríkisstjórnarflokkanna.
Í nýrri Facebook-færslu spáir Björn í stjórnmálin hér á landi og veltir upp mögulegum gjörningum flokkanna sem ráða. Segir hann að eðlilegast væri, skyldi stjórnin springa, að boðað yrði til kosninga sem allra fyrst. En ef Sjálfstæðismenn og Framsókarmenn ákveði að ýta Vinstri grænum út úr stjórninni og bjóða Flokki fólksins eða Miðflokknum við ríkisstjórnarborðið, sé því ekkert til fyrirstöðu. Nema þá siðferði, „en það skorar nú ekki hátt í þessum flokkum.“
Hér má lesa færsluna:
„Lýðræðið í spéspegli.
Ef – þegar – núverandi ríkisstjórn springur er eðlilegast að boða til kosninga skömmu síðar.
Einfaldlega siðferðilega rökrétt og sanngjarnt gagnvart öllum.
Núverandi stjórn fær þá mælikvarða á verk sín og stjórnarandstaðan fær þá að sjá hvaða væntingar eru gerðar til hennar.
Þannig á lýðræðið að virka.
En ekki er öruggt að þannig verði það látið virka.
Ef Sjallar og Framsókn ákveða að henda VG úr stjórninni er ekkert því til fyrirstöðu að Miðflokknum eða Flokki fólksins verði kippt inn í staðinn.
Bara siðferðið auðvitað, en það skorar nú ekki hátt í þessum flokkum.
Ef þetta gerist og Sigurður Ingi eða Bjarni tilkynna forsetanum um myndun nýrrar meirihlutastjórnar í landinu getur hann ekki annað en leyft því að gerast.
Það eru úrslit síðustu kosninga sem gilda – þar til kosið verður næst.
Skoðanakannanir breyta engu þar um.
Verði þetta gert væri verið að gefa öllum skoðanakönnunum fingurinn og mynda meirihlutastjórn sem hefði meirihluta á bak við sig miðað við fylgið 25. september 2021, en örugglega ekki miðað við stöðu mála í dag.
Lýðræðið er fjarri því að vera fullkomið.
Þessi litla dæmisaga er gott dæmi um það!
Einmitt svona lítur lýðræðið út í spéspegli!“