Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar fundaði með forsætisráðherra Noregs þar sem þau ræddu leiðina frá stjórnarandstöðu til ríkisstjórnar.
Kristrún, sem nú fer með himinskautum með flokki sínum í skoðanakönnunum en Samfylkingin er stærsti flokkur landsins samkvæmt þeim könnunum, birti færslu á Facebook þar sem hún segir frá spjalli sínu við Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra og formann Verkamannaflokksins í Noregi. Er þetta þriðji erlendi forsætisráðherrann sem hún hittir á tæpum mánuði en í maí fundaði hún með Akseli lögmanni Færeyja og Mette forsætisráðherra Danmerkur. Að hennar sögn ræddu þau leiðina úr stjórnarandstöðu og í ríkisstjórn en segir hún listina við að leiða sósíaldemókratískan flokk vera að „finna rétt jafnvægi fyrir samfélagið hverju sinni“.
Jonas hvatti Kristrúnu til að halda sínu striki „og tala fyrir raunhæfum leiðum til að bæta kjör, velferð og efnahag venjulegs fólks“. Færsluna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.
„Ræddi leiðina frá stjórnarandstöðu til ríkisstjórnar við Jonas Gahr Støre. Hann er forsætisráðherra og formaður Verkamannaflokksins í Noregi.
Það er mikils virði fyrir mig að geta leitað til reynslubolta eins og Jonasar. Hann var einn af nánustu ráðgjöfum Gro Harlem Brundtland, utanríkisráðherra í ríkisstjórnum Jens Stoltenbergs og hefur nú sjálfur leitt ríkisstjórn síðan árið 2021.
Listin við að leiða sósíaldemókratískan flokk er að finna rétt jafnvægi fyrir samfélagið hverju sinni. Á milli þjóðfélagshópa og landshluta til dæmis – en líka jafnvægi á milli breytinga og varðveislu þess sem vel hefur gefist. Í Noregi hefur það tekist vel og Verkamannaflokkurinn verið stærsti flokkurinn á Stórþinginu frá árinu 1927, algjörlega óslitið. Við getum lært af þeim.
Jonas hvatti mig til að halda mínu striki og tala fyrir raunhæfum leiðum til að bæta kjör, velferð og efnahag venjulegs fólks. Atvinnu- og auðlindamál voru ofarlega á baugi og sömuleiðis samhengið á milli skatta og velferðar. Norðmenn eru stoltir af norsku leiðinni við nýtingu náttúruauðlinda og við í Samfylkingunni munum án vafa líta til Noregs þegar við setjum af stað nýtt málefnastarf um atvinnu og samgöngur í haust.
Takk fyrir fundinn, Jonas“