Lögregla var kölluð út í tvígang með stuttu millibili í miðbæ Reykjavíkur í nótt. Í fyrra skiptið hafði lögregla afskipti af mönnum vegna slagsmála og verður annar þeirra kærður fyrir vopnalagabrot. Í seinna skiptið var tilkynnt um átök í heimahúsi. Lögregla fór á vettvang til þess að tryggja ástand og verður einn kærður fyrir líkamsárás og eignaspjöll. Auk þess verða tveir aðilar sem voru á staðnum kærðir fyrir þjófnað. Fólkið var frjálst ferða sinna að lokinni skýrslutöku.
Starfsfólk verslunar hafði samband við lögreglu í gærkvöldi eftir að hafa ítrekað beðið mann um að yfirgefa verslunina. Maðurinn neitaði að verða við beiðninni og kom lögregla því á vettvang. Tveir menn ruddust inn í íbúð á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og ógnuðu húsráðanda. Íbúinn hringdi skelkaður á lögreglu en þegar komið var á vettvang voru mennirnir á bak og burt. Samkvæmt dagbók lögreglu eru mennirnir grunaðir um eignaspjöll og líkamsárás.