Eftir ákvörðun matvælaráðherra um að banna veiðar á langreyði í sumar hefur Verkalýðsfélag Akraness það til skoðunar að sækja bætur til Hvals hf. vegna tekjutaps sem starfsmenn verða fyrir vegna bannsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins, segir að verið sé að undirbúa að stefna málinu til félagsdóms til að kanna réttindi félagsmanna gagnvart ákvörðuninni.
Þetta kemur fram í Fiskifréttum.
Ef mál gagnvart Hval hf. vinnst segir Vilhjálmur að það liggi fyrir að Hvalur sé jafnframt kominn með mál í hendurnar gagnvart ríkinu. Verði verkalýðsfélaginu hins vegar ekki ágengt gagnvart Hval hf. munu þau eðli málsins samkvæmt láta á það reyna gagnvart ríkinu.
Vilhjálmur lýsir banninu sem gerræðislegri, pólitískri ákvörðun sem hvorki virðist byggð á neinni fagmennsku né almennri skynsemi varðandi lögfræði og spyr um samstarfsflokkana.
„Hvar eru sjálfstæðismenn og hvar eru framsóknarmenn í þessu máli? Það er stóra spurningin í mínum huga. Ég botna ekki í svona löguðu, sérstaklega vegna þess að það er æði margt sem bendir til þess að þessi ákvörðun matvælaráðherra standist ekki lög. Ég spyr mig hvert pólitíkin sé komin þegar að við erum komin á þann stað að þetta muni jafnvel baka ríkinu skaðabótaskyldu og menn vita af því og ætla ekkert að gera með það.“