Það kostar ríkiskassann hátt í sjö milljónir króna að halda uppi dómurum í námsleyfum sem þeir geta tekið út á fjögurra ára fresti. Á hverju ári vinna íslenskir dómarar sér inn rétt til þriggja vikna námsleyfis á fullum launum. Dómari í námsleyfi á þar að auki rétt á greiddum ferða- og dvalarkostnaði meðan á leyfi stendur, allt að 1,5 milljón króna í hvert sinn. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR er ánægður að hafa nú í höndum viðmið um hvers sé nú hægt að krefjast fyrir verslunarfólk.
„Mér finnst skipta máli að dómstig landsins séu eins hæf og upplýst og kostur er enda gerum við ríkar kröfur til dómstóla. Það skiptir sköpum að fólk nýti sér þá möguleika á endurmenntun sem býðst. Það er mjög mikilvægur þáttur sem við hjá VR styðjum og viljum auka. Við værum alveg til í svona flottan pakka eins og dómarar hafa og munum að sjálfsögðu nota þetta sem viðmið fyrir því sem við reynum að sækja,“ segir Ragnar Þór.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs.