Sviðslistahópinum Spindrift hefur hlotnast sá heiður að vera boðið að flytja verk sitt Them á Edinburgh Fringe- hátíðina í ágúst en hópurinn fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir.
Sviðslistahópurinn Spindrift kom saman þegar fjórir stofnendur hópsins, Anna Korolainen Crevier, Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, Henriette Kristensen og Sólveig Eva Magnúsdóttir, voru við leiklistarnám í Rose Bruford College í London og mynduðu hóp til að æfa námsefni aukalega eftir skóla. Með áframhaldandi starfsemi hópsins eftir útskrift bættust við leikkonurnar Tinna Þorvalds Önnudóttir, Marjo Elina Lahti og Outi Ikonen.
Fyrsta verk leikhópsins var Þríleikur og samanstóð af þremur útskriftarverkum flytjenda. Sýningin var sett upp í Frystiklefanum í Rifi og Gaflaraleikhúsið árið 2013. Þar á eftir kom Carroll: Berserkur, sem byggt var á Lísu í Undralandi eftir Lewis Caroll. Það var sýnt sem verk í vinnslu í Drayton Arms Theatre í London árið 2014, og svo sem immersive leikhússýning í Tjarnarbíói í Reykjavík árið 2015. Þar fengu áhorfendur að upplifa það að vera Lísa og ráfa um Undraland sem náði til allra króka og kima leikhússins og þar sem þeir hittu fyrir hina undarlegustu íbúa landsins.
Næsta verk tók nokkurn tíma í undirbúningi og hefur verið sýnt á ýmsum stigum vinnunnar sem verk í vinnslu og á hverju stigi hefur hópurinn lært eitthvað nýtt. En verkið THEM er byggt á viðtölum sem meðlimir hópsins tóku við tugi karla á Norðurlöndunum á öllum aldri um upplifun þeirra af karlmennsku. Samtölin fóru um víðan völl og köfuðu djúpt. Þau vöktu með viðmælendum vangaveltur um sína eigin tilveru sem karlar í karllægu samfélagi og hópurinn fór að taka eftir ákveðnum þemum sem endurtóku sig og vann svo sýninguna út frá þeim.
Einnig hefur hópurinn sett upp verkið Við dönsum undir öskufalli endalokanna eftir Melissa-Kelly Franklin við Dixon Place í New York og á Reykjavík Fringe Festival árin 2020 á ensku og 2022 á íslensku, tónleikaútgáfu af óperunni Ástin ein taugahrúga, enginn dans við Ufsaklett sem Anna Halldórsdóttir samdi við samnefnda ljóðabók Elísabetar Jökulsdóttur og sem sett var upp í Mengi á Myrkum músíkdögum fyrr á þessu ári, auk þess sem í Finnland hefur sýning byggð á bók Maria Pettersson, Historian jännät naiset – eða Extraordinary women of history – gengið frá því í febrúar.
Um þessar mundir undirbýr hópurinn ferð á Edinborgar Fringe hátíðina þar sem hann mun sýna verkið THEM hvorki meira né minna en 23 sinnum á einum mánuði.
Sýningin hefur nú þegar ferðast til London og unnið til verðlauna á hátíðum í Reykjavík og í Gautaborg.
Verkið var sýnt í Tjarnarbíói á liðnu leikári og hlaut fyrir vikið Grímutilnefningu fyrir bestu sviðshreyfingar ársins, en hreyfihönnuður var Unnur Elísabet Gunnarsdóttir, sem einnig leikstýrði sýningunni.
Einnig er hópurinn nú að undirbúa nýja samsetta leiksýningu um hetjudáðir kvenna í þjóðsögum, mannkynssögunni og hversdagsleikanum, auk þess sem hann undirbýr verkefni fyrir næsta ár í samstarfi við RÚV og Útvarpsleikhúsið.
Spindrift vinnur verk sín yfirleitt með rannsóknarvinnu og oft í gegnum samsköpun. Útgangspunktur verkanna er sjálfsmynd einstaklingsins í breyttri heimsmynd og ljóðrænn frásagnarmáti og kvenlægt sjónarhorn er einkennandi.
Leikhópurinn hefur haldið vinnustofur sem einblína á sjálf leikarans sem nálgun fyrir leiktækni og sköpun. Sem kvenleikhópur leitast Spindrift við að uppgötva leiðir að femínískri leikþjálfun og leiktækni án hefðbundinnar hírarkíu/valdapýramída.
Hópurinn er ekki bara hópur sem býr til listaverk saman heldur einnig hópur sem snýst um að styðja og næra meðlimina og gefa hverri annarri innblástur og high five í lífsins ólgusjó.
Meðlimir hópsins eru búsettir víða um heim en það stoppar þá ekki í því að fagna því afmælisgleði verður haldin í galakjól með kampavín yfir hafið með hjálp internetsins.