Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, samkvæmt dagbók lögreglunnar.
Mikið var um hraðakstur víðsvegar um borgina og voru þó nokkrir ökumenn stöðvaðir vegna þess og sektaðir í kjölfarið.
Lögreglan á stöð 1, sem þjónustuar Austurbæinn, Miðbæinn, Vesturbæ og Seltjarnarnes, fór í útkall vegna manns sem sem lék sér að því að skera á dekk og koma til slagsmála. Var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa. Þá barst sömu lögreglu tilkynningu um einhvers konar Spiderman, sem var að klifra upp á byggingu. Reyndist hann í annarlegu ástandi, nema hvað.
Þá barst lögreglunni í Miðborginni tilkynning um tónlistarhávaða, ekki frá heimahúsi, heldur skemmtistað. Ein líkamsárás var tilkynnt í miðbænum.
Lögreglan sem þjónustar Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes handtók ökumann grunaðan um akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefnum, annan fyrir áfengiskeyrslu og enn einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.
Þá barst lögreglunni óvenjulegt útkall vegna manns sem grunaður var um akstur undir áhrifum áfengis, ávana- og fíkniefna og það á fjórhjóli. Valt maðurinn á hjólinu en hann var með farþega. Slasaðist ökumaðurinn lítillega.
Í Kópavoginum og í Breiðholtinu var talsvert um minniháttar útköll vegna hávaða í heimahúsi, vandræða manna á bar, hraðakstur og fleira í þeim dúr.
Í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbænum var nokkuð mikið um að ökumenn voru handteknir grunaðir um ölvunar og/eða fíkniefnaakstur. að öðru leyti var rólegt á þeim svæðum.