Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru alls bókuð 50 mál á tímabilinu frá 05:00 í morgun til 17:00 í dag.
Í miðbæ Reykjavíkur var aðili handtekinn fyrir ógnandi tilburði en hann hafði reynt að snapa fæting (slást) við vegfarendur. Vegna ástandsins á honum var hann handtekinn og látinn gista í fangageymslu. Var hann kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt.
Hefði aðilinn sem sagt er frá hér að ofan hitt þá þrjá aðila sem lögreglan handtók í miðborginni, hefði hann sjálfsagt fundið einhverja til að slásti við. Sem betur fer kom ekki til þess því þeir voru allir með eggvopn á sér og einn þeirra með að auki fíkniefni í fórum sínum. Voru þeir með hárreysti en eggvopnin voru gerð upptæk og voru allir kærðir vegna vopnalagabrots og einn þeirra fyrir vörslu fíkniefna að auki.
Þá barst tilkynning um menn í annarlegu ástandi fyrir utan hús í miðbænum. Þegar betur var að gáð, reyndust þeir í sólbaði. Ekki kom fram hvort þeir hefðu fengið sólsting, sem gæti útskýrt annarlega ástandið.
Í Hafnarfirði var lögreglan kölluð í heimahús vegna hávaða. Húsráðandi baðst afsökunar og lofaði að slútta samkvæminu. Þá bakkaði aðili á bifreið og reyndi að komast undan. Það tókst ekki en hann reyndist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna við aksturinn. Var hann fluttur á lögreglustöð í venjubundið ferli.
Lögregla sem þjónustar Kópavoginn og Breiðholtið var kölluð að fjölbýlishúsi vegna tveggja grunsamlegra manna sem höfðu reynt að brjótast inn í húsið. Tóku þeir til fótanna er þeir urðu varir við tilkynnanda.
Þá var tilkynnt um um aðila sem hafði slasað sig á hendi við að skera frosna beyglu en hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Alltaf að hita beygluna í ofni áður en hún er skorin.
Svo var tilkynnt um sauðfé sem olli hættu á Suðurlandsvegi. Samkvæmt dagbókinni var rollunum kennt umferðareglurnar. Mannlíf efast um lærdóm þeirra enda bölvaðir sauðir oft.
Að lokum barst tilkynning um reyk og mögulegan eld í gróðri í hverfi 110. Reyndist þetta hins vegar ekki á rökum reist.