Mikil ölvun var á höfuðborgarsvæðinu í nótt, samkvæmt dagbók lögreglunnar og hafði lögreglan í nógu að snúast. Hér eru helstu atriðið næturinnar.
Lögreglan sem þjónustar Austurbæ Reykjavíkur, miðbæinn, Vesturbæinn og Seltjarnarnes var kölluð í matvöruverslun vegna þjófnaðar á matvöru. Hafði aðili stolið níu súkkulaðistykkjum og einum rakspíra.
Til kynnt var um mann sem grunaður var um sölu fíkniefna. Lögreglan hafði upp á manninum og reyndist grunurinn réttur því á honum fannst fíkniefni og enn meira fíkniefni á dvalarstað mannsins.
Par leitaði á lögreglustöðina á Hverfisgötu eftir aðstoð en einhver ósætti urðu þeirra á milli. Lögreglumenn urðu vitni að því þegar annar aðilinn veittist að hinum. Sá var handtekinn og vistaður í fangaklefa.
Vegfarendur stöðvuðu lögreglumenn við eftirlit í miðborginni og sögðu mann hafa veist að öðrum skammt frá, sagður hafa slegið hann með glasi í andlitið. Árásarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa en árásarþoli var fluttur á slysadeild með áverka í andliti.
Þá var maður slasaður eftir átök við tvo menn sem komu sér undan. Sagði árásaþoli annan þeirra hafi dregið upp hníf en ekki beitt honum.
Lögreglunni sem þjónustar Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes barst tilkynning um mann sem svaf ölvunarsvefni á veitingastað. Þegar hinn svartölvaði maður rankaði við sig var hann viðskotaillur og sló frá sér til lögreglumanna. Reyndi hann að sparka og hrækja á lögreglumenn. Var hann vistaður í fangaklefa sökum ástandsins.
Þá barst tilkynning um moldfullan mann sem hringdi dyrabjöllum og ónáðaði íbúa í fjölbýlishúsi. Fór lögreglan í þrígang til að vísa honum á brott en hann lét ekki segjast. Var hann að lokum handtekinn en hann streittist á móti handtöku. Var hann vistaður í fangelsi.
Einnig barst tilkynning um ofurölvi mann við veitingastað. Gekk hann á brott en var grunaður um að brjóta tvær rúður í fyrirtækjum í grenndinni. Neitaði hann í þokkabót að gera grein fyrir því hver hann væri. Var hann vistaður í fangaklefa sökum ástandsins.
Lögreglan sem vinnur í Kópavogi og Breiðholti handtók aðila sem hafði haft í hótunum við annan með hníf. Var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Tilkynnt var um reyk og reykskynjara í gangi í fjölbýlishús í Breiðholtinu. Bæði lögregla og slökkvilið mætti á vettvang en þar hafði pottur gleymst á eldavél í mannlausri íbúð.