Jón Ármann Héðinsson, fyrrverandi alþingismaður, er fallinn frá. Hann fæddist á á Húsavík 21. júní 1927.
Hann starfaði meðal annars við sjómennsku á langri starfsævi. Hann stofnaði útgerðafélagið Hreifa á Húsavík ásamt fjölskyldu sinni. Hann rak útgerð og fiskvinnslu í Hafnarfirði til ársins 1990.
Vefmiðillinn Vísir segir frá andláti hans og upplýsir að Jón Ármann hafði alla tíð mikinn áhuga á stjórnmálum og sérstakan áhuga á sjávarútvegsmálum. Hann var um tíma bæjarfulltrúi á Húsavík. Hann sat í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna 1961 til 1963 og í stjórn Sölusambands íslenskra fiskframleiðenda 1964 til 1977. Jón Ármann var kjörinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn árið 1967 og sat á þingi til ársins 1978. Hann var hvað þekktastur fyrir að hafa fengið samþykkt lög ssem banna tóbaksauglýsingar.
Á efri árum starfaði hann sem fararstjóri á Spáni í ferðum fyrir eldri borgara.
Eiginkona Jóns Ármanns var Ólöf Ágústa Guðmundsdóttir. Þau eignuðust fjögur börn, tíu barnabörn og langafabörnin eru orðin ellefu.