Skemmdarvargur lék lausum hala á Seltjarnarnesi í gærkvöld. Óskað var aðstoðar lögreglunnar vegna framferðis mannsins og vegna eignaspjalla. Skemmdarvargurinn var handtekinn og reyndist vera viti sínu fjær vegna neyslu. Hann var læstur inni í fangaklefa þar sem hann verður þar til af honum bráir.
Ökumaður handtekinn í miðborginni, grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og annarra vímuefna. Hann var látinn blása og kom þá á daginn að hann mældist 1,94‰ í áfengismæli sem er mjög hátt og þýðir að hann var mjög ölvaður. Þá kom einnig í ljós að ökumaðurinn var án ökuréttinda. Hann var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.
Ökumaður í Garðabæ reyndi að stytta sér leið með því að aka gegn einstefnu. Árvökulir lögreglumenn stóðu hann að verki við þann háskaleik. Við skoðun kom í ljós að ökumaðurinn var ekki með ökuskírteini meðferðis. Hann fékk fyrir vikið tvöfalda sekt.
Bifreið var bakkað á vegfaranda á rafmagnskútu. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans til aðhlynningar, en áverkar hans reyndust vera minniháttar. Í Breiðholti varö árekstur á milli bifreiðar og vespu. Tveir voru fluttir með sjúkrabifreið á slysadeild.
Tilkynnt um slagsmálahunda í austurborginni. Slagsmálin voru yfirstaðin þegar lögregla kom á vettvang og ró komin á mannskapinn.