„Þetta er algjör mismunun,“ segir Arnar Þór Gíslason sem rekur ásamt fleirum staðina Kalda bar, Den Danske Kro, Enska barinn, The Irishman Pub og Lebowski bar. Honum, líkt og öðrum rekstraraðilum skemmtistaða, var gert að loka öllum stöðum sínum af sóttvarnarástæðum að undanskildum Lebowski bar en þar eru seldar veitingar.
„Veitingastaðir eru algjörlega pakkaðir af fólki. Fólk situr þar inni og drekkur á meðan við megum alls ekki opna,“ segir Arnar í samtali við Mannlíf. Hann undrar sig á að nú sjá rekstraraðilar veitingahúsa fram á að geta tekið á móti fleiri viðskiptavinum þegar takmörkunum verður aflétt í næsta áfanga þann 25. maí en enn er óljóst hvenær krár og skemmtistaðir fái að opna aftur.
„Menn eru að verða svolítið þreyttir á þessu.“
„Við erum ekki að fá inn neinar tekjur en það þarf samt áfram að borga laun og leigu. Menn eru að verða svolítið þreyttir á þessu,“ segir Arnar.
„Við erum auðvitað ekkert að biðja um að fá að opna og hafa opið til fjögur á nóttunni. Við viljum bara fá að opna og reka staðina með sömu takmörkunum og veitingastaðirnir. En þeir vilja meina að fólk missi algjörlega stjórn á sér um leið og staðurinn er skilgreindur sem krá eða skemmtistaður,“ segir Arnar.
„Þeir telja meiri hættu fylgja því að drekka nokkra bjóra inni á krá en að drekka nokkra bjóra inni á veitingastað. Það er óskiljanlegt.“
Hann segir að nú sé bara að bíða og sjá. „Við erum að verða þreyttir og nú er verið að gefa í skyn að við þurfum að bíða eitthvað lengur inn í sumarið.“