„Það má teljast undarlegt að svæðið er ekki afgirt með borða lögreglu, enda í alfaraleið og um opið svæði að ræða,“ sagði gangandi vegfarandi í samtali við blaðamann Mannlífs um svæðið umhverfis lóð útihúsins, sem brann í nótt. Hann bendir jafnframt á að svæðið sé vinsæll útivistarstaður og vinsæll meðal fjölskyldufólks og barna til að fóðra gæsir og kanínur.
Eldur kviknaði í útihúsi við Elliðarárdal í nótt. Slökkvistarf gekk brösulega þar sem ekki var nærtækur brunahani auk þess sem mikill eldsmatur var inni í skúrnum. Um tíma var talið að fólk væri inni í húsinu. Slökkvistarfi lauk um klukkan sex í morgun. Komið hefur fram frá slökkviliðinu að eldsupptök séu óljós.
Útihúsið stendur við einbýlishús að Stekkjarbakka og er borgarbúum velþekkt þar sem mergð kanína og gæsa heldur til. Samkvæmt heimildum Mannlífs hefur ekki verið búið í húsinu í einhvern tíma. Er einbýlishúsið því yfirgefið og allmikill sóðaskapur verið í kringum það. Óljóst þykir hvort húsin hafi verið tengd rafmagni.