Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir margt fatlað fólk upplifa að það hafi gleymst í aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna áhrifum kórónuveirufaraldursins.
Þuríður og Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi Hjálparstarfs kirkjunnar, ræddu í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun stöðu fátækra á Íslandi sem þær segja fara versnandi í faraldrinum.
Vilborg segir 60% aukningu hafa orðið á beiðnum um aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar ef miðað er við sama tíma í fyrra. Hún segir einstæðar mæður og öryrkja verða meðal þeirra sem óska eftir aðstoð í auknum mæli.
Þuríður og Vilborg eru sammála um að örorkulífeyrinn sé allt of lágur og hafi verið í langan tíma. Þær segja hópinn sem býr við sára fátækt hér á landi oft gleymast, ekki síst núna í kreppunni sem blasir við. „Það er ömurlegt að við séum að upplifa þetta í íslensku samfélagi. Stjórnvöld eru í raun að velta ábyrgðinni að brauðfæða fatlað og langveikt fólk yfir á hjálparsamtök,“ segir Þuríður.
Hún segir málefni fatlaðs fólks hafa gleymst. Hún segir Öryrkjabandalagið hafa reynt að minna stjórnvöld á að hugsa um þennan hóp, hóp sem býr nú þegar við fátækt og er útsett fyrir að lenda í meiri fátækt vegna ástandsins sem skapast í faraldrinum.
Vilborg bendir á að stjórnvöld séu eitthvað að reyna að koma til móts við þennan hóp tímabundið en að þau úrræði dugi skammt. „Það er einhver hugsun í gangi en það er eins og það sé verið að gefa fólki ölmusu.“
Hún segir að nú þurfi að hugsa til lengir tíma þannig að Íslendingar geti verið stoltir af því að búa í landi þar sem velferðarkerfið virkar fyrir alla.