Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, óttast að við munum glíma við afleiðingar sinueldanna í mörg ár.
„Þessir sinueldar eru baneitraðir. Þeir innihalda krabbameinsvaldandi lofttegundir og fínagnir sem komast í öndunarfæri fólks. Þegar fólk er búið að vera meira en korter í þessum reyk er það komið með væg einkenni reykeitrunar. Og ef fólk er lengur er það komið með alvarleg einkenni,“ sagði Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is í dag um þá sinuelda sem geisa við gosstöðvarnar á Reykjanesinu.
„Við erum hér á norðurhjara veraldar og þegar gróður skemmist svona mikið má búast við því að við taki uppblástur, og við getum verið að glíma við afleiðingarnar í mörg ár.“
„Þetta gos er miklu kröftugra en hin tvö þannig að það er ólíklegra að þetta dragist eitthvað á langinn. Má ímynda sér 2-3 vikur,“ sagði Ármann um eldgosið sjálft og mögulegan líftíma þess.
Svæðið er ennþá lokað almenningi en tilkynnt verður um mögulega opnun á svæðinu síðar í dag.