Tveir voru handteknir þar sem þeir slógust með hníf og sög í miðborginni. Ekki var hægt að skera úr um hvað þeim gekk til þannig að þeir voru vistaðir vegna málsins.
Tilkynnt var um innbrot og þjófnað á hárgreiðslustofu þar sem nokkuð af hársnyrtivörum hafði verið tekið en eigandinn mun hafa geymt önnur verðmæti í tryggri hirslu. Ekki er vitað hvort hendur hafi verið hafðar í hári þjófanna en málið er í rannsókn.
Tilkynnt var um þjófnað í verslun í miðborginni þar sem aðili hafði stolið töluverðu magni af kjötvöru. Aðilinn reyndist viðskotaillur og hreytti fúkyrðum í lögreglumenn. Málið var leyst á vettvangi.
Í miðborginni var tilkynnt um par sem var að taka í hurðahúna. Bæði voru í annarlegu ástandi og sögðust vera að reyna að komast heim til sín þegar lögregla hafði afskipti af þeim en þeim var í kjölfarið ekið á réttan stað.
Maður í Garðabæ slasaðist töluvert á fæti þegar hann datt aftur fyrir sig við að lyfta hljólbörum. Viðkomandi var fluttur á bráðamóttöku.
Ungum ökumanni var veitt tiltal þegar hann ók gegn umferð til að komast hjá umferðaröngþveiti. Ökumanninum var sleppt en hann viðurkenndi mistök sín og lofaði að læra af reynslunni.
Rúða var brotin í verslun í hverfi 109. Ekki er vitað hver framdi verknaðinn og málið er í rannsókn.