Vikulega tekur ritstjórn Mannlífs saman hverjir hafi átt góða og slæma viku. Þessi lentu á lista að þessu sinni.
Góð vika: Hárgreiðslufólk og rakarar
Það var heldur betur handagangur í öskjunni þann 4. maí þegar hárgreiðslu- og rakarastofur fengu leyfi til að taka á móti viðskiptavinum eftir samkomubannið. Allir, og ömmur þeirra, flykktust í klippingu og komust færri að en vildu. Vefsíður birtu myndir af alls kyns frægu fólki í stólum hárgreiðslustofanna um allt land og alls staðar var gleðin ríkjandi. Enda hreint út sagt orðin hörmung að sjá ýmsa eftir margra vikna klippingarleysi. Meðal þeirra sem mættu í stólinn voru samgöngu- og sveitarstjórnarráðherrann, Sigurður Ingi Jóhannsson, og ástmögur þjóðarinnar þessar vikurnar, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Kortavélar hárgreiðslustofanna höfðu vart undan og óhætt að segja að hárgreiðslufólk og rakarar hafi átt sína bestu viku langalengi.
Slæm vika: Íslenskir tónlistarmenn
Íslenskir tónlistarmenn fengu áfall í vikunni þegar upplýst var að tveggja metra reglan yrði væntanlega í gildi út þetta ár. Það þýðir auðvitað að ekki verður hægt að halda tónleika og sjá tónlistarmenn fram á að verða meira og minna tekjulausir það sem eftir er ársins. Fjöldi landsþekktra tónlistarmanna tjáði sig um málið á Facebook og Twitter og var þungt í þeim hljóðið. Bragi Valdimar Skúlason sagði að dagurinn væri „kolbikasvartur fyrir listafólk“, Bubbi Morthens lýsti því yfir að hann yrði nánast atvinnulaus ef ekkert tónleikahald yrði og Bó sjálfur, Björgvin Halldórsson, sagði að þetta þýddi „ekkert smávegis tjón,“ og bætti við: „Við verðum að fá einhverja hjálp með að minnka það. Nú er ekki hægt að kenna neinum um nema þessari andskotans veiru.“ Heldur betur svört vika fyrir listafólkið okkar.