Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Einar Vilberg: Varð næstum því söngvari Stone Temple Pilots og ný plata með Dead Eyed Creek

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Einar Vilberg hyggur á útgáfu nýrrar plötu á næstunni með hljómsveit sinni Dead
Eyed Creek.

Platan mun heita Out of Phase og skartar alls 11 lögum. Ásamt Einari er
hljómsveitin skipuð Job Bos (Satyricon), Norman Lonhard (Triptycon) og Max Blok
en úr verður hljómfögur rokktónlist með þungum undirtóni.

Mynd / Dead Eyed Creek

Sveitin var stofnuð á meginlandinu haustið 2019 þegar Job setti sig í samband við
Lonhard með það fyrir augunum að stofna hljómsveit þar sem takmarkið væri að
semja tónlist eins og hann hafði alist upp við, sem er nokkur kúvending frá
þungarokksböndunum sem þeir höfðu verið í áður. Skömmu áður en fyrstu upptökur hófust fengu þeir bassaleikarann Max Blok til liðs við sig en eftir að hafa prófað nokkra söngvara duttu þeir niður á Einar í gegnum umboðsmann Einars og Sólstafa, Erin Lynch.

Einar féll vel í kramið hjá hljómsveitinni þar sem hann býr yfir miklu raddsviði auk þess að vera hæfileikaríkur gítarleikari sem sannaðist heldur betur þegar minnstu munaði að hann yrði ráðinn söngvari Stone Temple Pilots árin 2016-17.

Einar samþykkti að byrja á að semja eitt lag með Dead Eyed Creek sem gekk það
vel að hann gekk til liðs við sveitina. Umrætt fyrsta lag heitir Set Me Free og er
aðgengilegt á YouTube en tónlistarmyndbandið var unnið af Matt Mahurin sem
meðal annars hefur gert myndbönd fyrir sveitir eins og U2, Metallica, Alice in
Chains, R.E.M. og Tom Waits. Bandaríska leikkonan Ruby Modine (Shameless) fer
með aðalhlutverk í myndbandinu.

- Auglýsing -

Hljómsveitin hyggst fara á tónleikaferðalag í kjölfar útgáfunnar og þar sem meðlimir
sveitarinnar eru spenntir að heimsækja Ísland er líklegt að við getum séð
hljómsveitina á sviði hér áður en langt um líður.

Stone Temple Pilots

Það er kannski ekki á allra vitorði en minnstu munaði að Einar yrði söngvari Stone
Temple Pilots.

- Auglýsing -

Eftir fráfall Scott Weiland söngvara STP árið 2015 fór sveitin að leita sér að
söngvara til að bera kyndil sveitarinnar áfram. Árið 2016 benti Stefán, bróðir Einars,
honum á að hljómsveitin væri að leita sér að söngvara og hann ætti að gefa kost á
sér sem hann svo gerði.

Mynd / Einar Vilberg

Af tugþúsundum sem sóttust eftir stöðunni stóð Einar að lokum uppi sem einn þriggja sem valið stóð á milli. Ekkert heyrðist frá sveitinni í um hálft ár en einn dag þegar Einar stóð við grillið barst honum tölvupóstur.

„Ég varð bara grár í framan þegar ég fæ allt í einu tölvupóst frá umboðsmanni STP þess efnis að bandið kunni að meta það sem það hafi heyrt og vilji heyra meira. Þeir biðja mig um að syngja eitt eða tvö lög í viðbót og vilja fá sendar myndir.“

Einar söng inn á þrjú lög til viðbótar og sendi ásamt myndum til Los Angeles. „Eftir
það gerðist allt frekar hratt og daginn eftir að ég hafði sent þeim mínar útgáfur fékk
ég boð um að koma til L.A, hitta hljómsveitina og fara í áheyrnaprufur.“

„Stuttu síðar hringdi Dean DeLeo í mig og sagði mér að þeir væru mjög spenntir
fyrir þessu því þeim þætti èg vera með eina bestu rödd sem þeir hefðu heyrt.“
Áheyrnaprufurnar fóru fram í stúdíó 606, sem er í eigu Dave Grohl (Foo Fighters /
Nirvana). Þegar komið var í stúdíóið blöstu við gull- og platínuplötur fyrir þær
fjölmörgu plötur sem Nirvana og Foo Fighters hafa gefið út.

Mynd / Einar Vilberg

„Gamla Neve upptökuborðið úr Sound City, sem Nevermind var tekin upp á, var inni í control herberginu og ég fékk aðeins að fikta í því,“ segir Einar, sem er menntaður hljóðmaður og hafði sjálfur á þessum tíma starfrækt hljóðver í fjölda ára.
„Það var súrrealískt þegar við byrjuðum að spila og fyrir mig að heyra gítarinn í fyrsta laginu „Big Empty“ fylla herbergið. Þegar ég var farinn að gefa í og öskra aðeins í fyrsta laginu sá ég Deleo bræðurna slammandi og brosandi við hliðina á mér í góðum fíling.“

Eftir vel heppnaðar áheyrnaprufur gekk Einar sáttur út úr Stúdíói 606 og segist fyrst
og fremst vera þakklátur fyrir þessa lífsreynslu sem hann hafi fengið að upplifa. „Að
hafa verið í þriggja manna hópi sem þeir völdu persónulega úr 40.000 umsóknum
er líklega mesta hrós sem ég hef fengið sem söngvari og tónlistarmaður.“

Einar Vilberg ætti að vera íslenskum rokkunnendum kunnugur en hann, ásamt
bróður sínum, stofnuðu hljómsveitina Noise árið 2001 og fóru að gára vatn
rokksenunnar hérna heima, þá aðeins 15 ára gamlir. Auk þess að spila með Noise
og að gefa út tónlist undir eigin nafni hefur Einar verið áberandi undanfarin ár í
ýmsum tribute verkefnum ásamt Franz Gunnarssyni úr Ensími / Dr. Spock og
hefur einnig rekið hljóðverið Hljóðverk. Hægt er að sjá Einar og Franz á fyrsta
miðvikudegi hvers mánaðar á sérstökum Grunge kvöldum á rokkstaðnum Lemmy
við Austurstræti.

Eftir að hafa samið og gefið út 6 plötur með hljómsveit sinni NOISE, tvær sólóplötur,
fjöldan allan af smáskífum, ásamt því að hafa pródúserað fleiri tugi platna fyrir
annað tónlistarfólk og farið í fjölmörg tónleikaferðalög erlendis er Einar þessa
dagana að gera tónlist undir eigin nafni og með nýju hljómsveit sinni Dead Eyed
Creek ásamt öðrum samstarfsverkefnum.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -