Enska leikkonan og Bond stúlkan Jane Seymour er stödd á Íslandi. Hún prýddi lengi skjá landsmanna undir lok síðustu aldar þar sem hún lék lækninn Dr. Quinn í vestradramanu “Dr. Quinn, Medicine Woman”.
Samkvæmt Facebook lenti hún hér á landi þann 11. júlí en í fyrstu færslu sinni áréttar hún það við fólk að vera alltaf viðbúin hinu óvænta þegar það ferðast því skömmu eftir að hún lenti fékk hún að upplifa jarðskjálfta og svo stuttu seinna hófst eldgos.
Seymour nýtur greinilega lífsins á Íslandi. Hún beislaði sína innri Dr. Quinn og birti mynd af sér þar sem hún brá sér á hestbak í Íslenskri náttúru með nýjum vini sínum en upplifuninni lýsti hún sem „hnegg“-jaðri.
Hún heimsótti Kerið og Gullfoss, kannaði torfkofa, jökla og íshella auk þess að skella sér svo í Sky Lagoon en af myndunum má dæma að hún nýtur lífsins hér í botn.
Seymor á að baki farsælan feril sem leikkona sem spannar rúm 50 ár og hefur unnið til fjölda verðlauna sem slík en hún fékk stjörnuna sína á „Hollywood Walk of Fame“ árið 2000.
Auk þess að vera farsæl leikkona er hún líka rithöfundur og hefur aðeins dýft stóru tánni í heim tískunnar.