Gestur Sjóarans að þessu sinni er myndlistamaðurinn Tolli Morthens. Fyrstu kynni Tolla af Atlantshafinu var þegar hann var messagutti á Gullfossi árið 1971. Sú upplifun veitti honum kjarkinn í það að gerast sjóari á fiskibátum því hann hlyti að vera vanur; annað kom á daginn.
Viðtalið má sjá hér í heild sinni á efnisveitu Mannlífs.
,,Ég byrjaði á humarbát frá Stokkseyri, það varði eina viku og þá pakkaði ég saman; ,,Ég er ekki að fara að gera þetta.“ Ég var svo sjóveikur, maður, alveg ferlega.“
Enn reyndi hann og fór þá á snurvoðarbát frá Patreksfirði, og hérna, það var sama sagan. „Við vorum þrír guttar úr Reykjavík og maður dróst að þessu út af einhverri rómantík. Þetta var ekki það að maður ætlaði að ná sér í pening, þetta var meira svona að þar sem við hipparnir úr Reykjavík gátum ekki farið til Mexíkó eins og þeir í San Fransisco þá gat maður allavega drullað sér á Patró.“
Hann datt svo niður á það að skipuleggja réttindabaráttu farandverkamanna, vegferð sem rataði meðal annars inn í tónlist og texta hjá Bubba, en þetta vakti athygli stjórnmálamanna og verkalýðshreyfingarinnar sem skilaði sér svo í því að lög voru sett á um réttindi farandverkamanna.
Tolli stiklar á stóru yfir ansi magnað lífshlaup bæði til sjós og lands en hann bjó um tíma í Kristjaníu, í kommúnu hér heima og segir frá því þegar hann var rekinn úr Listaskólanum.