Lögreglu bárust tvær tilkynningar í gærkvöldi um þjófnað úr verslunum í hverfi 101 og 108. Síðar um kvöldið var brotist inn í aðrar tvær verslanir í hverfi 108 og 103 en lögregla rannsakar nú málin. Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í gærkvöld eftir að hafa ítrekað ógnað fólki með stórum hníf. Maðurinn var vistaður í fangaklefa lögreglu og er hann grunaður um brot á vopnalögum.
Þá barst lögreglu tilkynning um mann sem féll í sjóinn. Eftir að búið var að koma manninum á þurrt land kom í ljós að hann var töluvert ölvaður og hafði ákveðið að skella sér í sjósund. Seint um kvöldið sinnti lögregla útköllum vegna hávaðakvartana þar sem íbúar voru orðnir þreyttir á samkvæmi nágranna sinna. Fólkið var því beðið um að sýna tillit og lækka. Tvær tilkynningar bárust einnig lögreglu vegna grunsamlegra mannaferða. Í öðru tilvikinu hafði maður reynt að brjótast inn í hús í miðbænum en var á bak og burt þegar lögreglu bar að garði.