Kristvin Guðmundsson, ljósmyndari og leiðsögumaður, er verulega ósáttur með umgengni í Landamannalaugum.
„Þetta leit bara skelfilega illa út, það voru stífluð klósett, ógeðsleg lykt, þrifunum ábótavant og annað,“ sagði Kristvin í samtali við mbl.is.
„Manni ofbauð á þessum stað sem á að heita paradís hálendisins. Maður er alltaf að segja við ferðamennina að Ísland sé svo hreint, en svo stoppar maður á ýmsum stöðum og hugsar: „Úff, ég vona að þetta sé í lagi.“.“
Hann segist hafa látið starfsfólk vita en viðbrögðum hafi verið óbótavant. Hann segir jafnframt að Landamannalaugar séu alls ekki eini staðurinn á landinu sem er svona illa gengið um og nefnir Þingvelli sem dæmi. „Á þessum stöðum sem ferðamennirnir koma er þetta skelfilegt. Sumir eru ekkert slæmir en aðrir alveg hrikalegir. Þetta er bara subbulegt og það er verið að rukka fyrir þetta,“ sagði Kristvin en aðstöðugjald í Landmannalaugum er 500 krónur á mann.