Hjónin Fanney K. Hermannsdóttir og Guðmundur Fertram Sigurjónsson seldu nýverið fyrirtæki sitt til alþjóðlegs tæknirisa fyrir tæpar 180 milljarða króna. Á tímabili neyddust þau til að flytja skrifstofur sínar heim til sín.
Þau Fanney og Fertram eru í viðtali í sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins en þar ræða þau um sín fyrstu kynni fyrir þrjátíu árum síðan en þau eiga nú fimm börn. Þá ræða þau um hið vestfirska stórfyrirtæki Kerecis sem þau komu á laggirnar árið 2007, en á tímabili var óvíst hvort lifði af en þau gáfust ekki upp og hafa nú selt fyrirtækið fyrir um 180 milljarða króna.
Árið 2012 var erfitt ár hjá Kerecis en hjónin höfðu engan áhuga á að gefast upp. Þess í stað brugðu þau á það ráð að færa skrifstofur sínar heim í stofu, minnkuðu starfsemina til muna og unnu aukavinnu svo þau gætu borgað launakostnað annarra starfsmanna. Þessi ákvörðun borgaði sig heldur betur en nýverið keypti alþjóðlegi læknarisinn Coloplast fyrir 1,2 milljarða dala eða tæpar 180 milljarðar króna, líkt og áður hefur komið fram.
Samkvæmt Mbl.is ætla þau hjónin ekki að liggja með tærnar upp í loftið eftir söluna því Fertram ætlar sér að sanna það sem forstjóri fyrirtækisins næstu tvö árin að minnsta kosti, að salan séu bestu viðskipti sem Coloplast hefur ráðist í. Hjónin brenna einnig fyrir nýsköpun og atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum en þau segja að samgöngur spili þar stórt hlutverk.
„Við erum með margar hugmyndir. Það sem þó breytist núna er að við þurfum ekki að leita til fjárfesta til þess að hrinda þeim í framkvæmd,“ segir Guðmundur Fertram í viðtalinu við Morgunblaðið.