- Auglýsing -
Lögreglan á Suðurnesjum minnir á umferðalögin á einum stærsta ferðadegi ársins. Þeir leggja áherslu á að ökumenn með ferðavagni aki á löglegum hraða, líkt og aðrir. Lögreglan varar við því að setjast undir stýri eftir neyslu vímuefna, oft sé áfengi enn mælanlegt daginn eftir mikla drykkju og lítinn svefn.
„Margir hyggja ef til vill á heimferð eftir góða verslunarmannahelgi og er þá tilvalið að óska ykkur öllum góðrar ferðar. Munið að vera þolinmóð i umferðinni og sýna öðrum tillitsemi.
Þá viljum við minna á mikilvægi þess að þeir sem eru með ferðavagna/eftirvagna í eftirdragi virði reglur um hámarkshraða, líkt og aðrir ökumenn. Þá er líka nauðsynlegt að minna á að auk þess að skilyrt er að ekið sé á löglegum hraða þurfa farþegar og ökumenn að spenna öryggisbeltin. Gætum einnig að framúrakstri en hann getur vandast talsvert í þungri umferð.
Þá er það aðeins um vímuefnaneyslu en það er afar mikilvægt að ökumenn séu allsgáðir fyrir aksturinn. Oft vill svo til að áfengi sé ennþá að finna í ökumönnum eftir langa vöku og stuttan svefn og viljum við því hvetja ykkur til þess að hugsa út í þessi atriði áður en akstur hefst – ekki taka sénsinn.
Við verðum með virkt eftirlit með umferðinni í dag og hlökkum til að sjá ykkur á ferðinni í heimahögunum – með allt ykkar upp á tíu.“