Rúmfatalagerinn skiptir um nafn í september og mun heita JYSK.
Eitt ástsælasta fyrirtæki landsins mun skipta um nafn í lok september en þá mun fyrirtækið sem nú heitir Rúmfatalagerinn skipta um nafn. Nýja nafnið verður JYSK en er það upprunalega nafn fyrirtækisins sem stofnað var í Danmörku árið 1979 en Rúmfatalagerinn hóf starfsemi á Íslandi árið 1987. Ekki er allir sáttir með fyrirhugaða nafnabreytingu.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emiritus í íslenskri málfræði er einn af þeim. „Eitt og eitt heiti skiptir ekki máli þannig séð, en maður verður að horfa á þetta í samhengi og hvað svona nafnbreyting sýnir um hugmyndir okkar um íslensku og útlensku. Af hverju erum við alltaf að forðast íslenskuna?“ spyr Eiríkur í viðtali við Vísi.
„Svona einangruð dæmi skipta í raun engu máli. Það skiptir engu máli þó að einhver vara eins og Toppur eða eitthvert fyrirtæki eins og Rúmfatalagerinn breyti um nafn. Það sem ég hef miklu meiri áhyggjur af er í raun og veru það sem liggur að baki. Þetta viðhorf, eða hugmynd eða trú að erlend heiti séu á einhvern hátt heppilegri og að íslensk heiti séu, að því er virðist, hallærisleg,“ sagði Eiríkur um málið.
„Ég hef miklu meiri áhyggjur af sjúkdómnum sjálfum heldur en sjúkdómseinkennunum. Þetta bara ber vott um þetta hugarfar, sem er óheppilegt, að erlend heiti virki á einhvern hátt betur heldur en íslensk.“