Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Þjóðin situr uppi með Icelandair

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Útlit er fyrir að íslenska þjóðin sitji uppi með Icelandair-flugfélagið og það komi alfarið í hennar hlut að bjarga því frá falli. Nú þegar á almenningur stóran hluta í flugfélaginu í gegnum eignarhluti lífeyrissjóðanna. Allt stefnir í að fólkið í landinu eignist enn meira í gegnum skuldbreytingu lána stóru ríkisbankanna sem nú þegar hafa lánað flugfélaginu í kringum 20 milljarða króna, mögulega hlutafjáraukningu lífeyrissjóðanna og skattfé landsmanna með lánum og ábyrgðum ríkissjóðs. Þessu til viðbótar hefur félagið lýst því yfir að almenningi verði boðin þátttaka í hlutafjárútboði og því ljóst að það verður almennings að bjarga Icelandair. Á sama tíma virðist stærsti eigandi félagsins vera að kasta inn handklæðinu og einkafjárfestar virðast fram til þessa ekki hafa mikla tiltrú á viðreisnarverkefninu.

Hálaunaðir toppar

Stærstu hluthafar Icelandair, íslensku lífeyrissjóðirnir, gera það að skilyrði fyrir hlutafjáraukningu að endursamið verði um kjör við starfsmenn flugfélagsins til langs tíma. Samkvæmt heimildum Mannlífs er um fjórðungur starfsfólks með 75% þeirra launa sem félagið greiðir. Flugmenn, flugfreyjur og stjórnendur Icelandair eru meðal þeirra sem verða að gefa eftir. Þá vilja hluthafarnir skýr svör um samningsmál félagsins við Boeing-fyrirtækið vegna Max-þotanna gölluðu því losna þurfi undan þeim samningum og ráðast í endurnýjun annars úrelts flugvélaflota. Fyrr séu hluthafar ekki tilbúnir að leggja til aukið hlutafé og fyrr en það gerist munu hvorki bankarnir skuldbreyta lánum né ríkið veita aðstoð sína í formi lánveitinga eða ríkisábyrgða. Það er ekki nema í þessari röð sem kapallinn hjá Icelandair mun ganga upp.

Skuldbreyta 20 milljörðum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Ríkisbankarnir tveir, Íslandsbanki og Landsbanki, eiga samkvæmt heimildum Mannlífs kröfur á Icelandair upp á nærri 20 milljarða og er mikilvægur hluti af endurfjármögnun félagsins sú ósk að bankarnir breyti lánum sínum í hlutafé. Vandinn er sá að slík skuldbreyting mun ekki styrkja lausafjárstöðu Icelandair en Bogi Nils Bogason forstjóri hefur lýst því yfir að félagið lifi ekki sumarið af án þess að fjármunir komi inn í reksturinn.

Mannlíf hafði áður greint frá því að Icelandair þurfi að minnsta kosti að fá 20 milljarða inn í félagið með boðuðu hlutafjárútboði en í vikunni kom það fram að sú tala geti verið nærri 30 milljörðum þar sem útlit sé fyrir að félagið verði nær tekjulaust út árið. Stærstu hluthafar flugfélagins hafa hins vegar sagt að þeir taki engar ákvarðanir um frekari fjárfestingar fyrr en upplýsingar og áætlanir félagsins liggi fyrir. Ef Icelandair tekst að safna því hlutafé sem félagið stefnir að þá eru stjórnvöld tilbúin að koma til aðstoðar með aðkomu að lánalínum með ríkisábyrgð. Það staðfesti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í gær og útilokaði ekki að ríkið gerist hluthafi.

- Auglýsing -

Sett í þrot?

Jón Karl Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair og stjórnarformaður Heimsferða, hefur lýst yfir áhyggjum sínum að lífeyrissjóðirnir stóru kunni að tapa eignum sínum í flugfélaginu og að mögulega komi til þess að fyrirtækið þurfi að lúta í lægra haldi. Samkvæmt Markaði Fréttablaðsins gera stjórnendur Icelandair ráð fyrir því að áfram verði starfað undir sömu kennitölu en að það hafi einnig verið rætt að setja félagið í gjaldþrot. Flugfélagið yrði síðan endurreist en við það gætu mikil verðmæti og viðskiptasambönd tapast.

Heimildir Mannlífs herma einnig að við samningaborðið undanfarið hafi því verið hótað að stofnað verði nýtt flugfélag og endursamið við alla. Sömu heimildir herma að töluverðri hörku gæti af hálfu stjórnvalda gagnvart stjórnendum Icelandair varðandi mögulega aðkomu ríkisins að björgunarstarfinu. Þannig eru bæði núverandi hluthafar og stjórnvöld gallhörð á því að fá fyrst að sjá í hvað þau væru að setja peningana.

- Auglýsing -

Ýta á play í haust

Slæm staða Icelandair blasir við. Félagið tilkynnti í vikunni stærstu hópuppsögn Íslandssögunnar og hyggst efna til hlutafjárútboða á næstunni, annað fyrir fjárfesta og annað útboð opið almenningi. Á meðan Icelandair endurskipuleggur starfsemina stefnir Play-flugfélagið að því að hefja flug 1. október næstkomandi og er nú að skoða gylliboðin sem streyma inn frá fjölda fyrirtækja sem bjóða upp á útleigu flugvéla samkvæmt áreiðanlegum heimildum Mannlífs. Félagið hefur kynnt áætlunina fyrir helstu samstarfsaðilum og bakhjörlum samkvæmt sömu heimildum. Þegar félagið hefur fest vélar mun það leysa út flugrekstrarleyfið sem bíður þess tilbúið hjá Samgöngustofu og bókunarvél félagsins er einnig tilbúin til að opna fyrir bókanir. Fjármögnun Play til að hefja leik er því í höfn og unnið hörðum höndum nú að því að tryggja langtímafjármögnun félagsins. Til þess vantar nú lítið upp á og yrði þá vöxtur flugfélagsins tryggður til framtíðar að mati eigenda.

Á meðan Icelandair endurskipuleggur starfsemina stefnir Play-flugfélagið að því að hefja flug 1. október næstkomandi.

 

Stæstu hluthafar Icelandair:

Par Investment Partners L.P. Boston13,50%
Lífeyrissjóður verslunarmanna Kringlunni11,81%
Gildi lífeyrissjóður Guðrúnartúni 17,24%
Birta lífeyrissjóður Sundagörðum 27,07%
Lífeyrissj.starfsm.rík. A-deild Engjate6,24%
Aðrir54,14%

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -