Ragnheiður Ósk segir að heilbrigðisstarfsmenn hafi fengið Covid um Verslunarmannahelgina.
Eins og gengur og gerist um Verslunarmannahelgi þá nældi fólk sér í hinar ýmsu pestir og þá hefur verið nokkuð um Covid-smit meðal heilbrigðisstarfsmanna.
„Þetta er allavega meira í umræðunni. Það er okkar tilfinning en við höfum engar mælingar til þess að styðjast við. En ég sé það hér innanhúss að þetta er líka að bíta heilbrigðisstarfsfólk. Við erum aðeins að glíma við þetta líka en þetta stingur sér allsstaðar niður,“ sagði Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.
„Við erum ekki markvisst að skima eða taka sýni eins og var áður. Það var svolítið um það að fólk var að hafa samband við okkur eftir að hafa tekið heimapróf. En við getum lítið gert nema fólk sé veikt. Á tímabili voru hótelin til dæmis að senda til okkar ferðamenn vegna þess að þeir voru að greinast með veiruna. Við gerum ekki neitt vegna þess að þetta er bara veirusýking og fólk þarf að ná sér. Hugsa um sig og ná heilsu,“ en nú sé litið á Covid sem almenna flensu. Þá er fólk minnt á að halda sig heima telji það sig vera veikt.
„Venjulegt fólk ræður auðveldlega við flensuna en viðkvæmt fólk ætti að láta bólusetja sig. Covid kemur svolítið við hliðina á þeirri flensu, getur leikið þá grátt sem eru eldri og viðkvæmir fyrir,“ sagði Ragnheiður að lokum.