Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur staðið við stóru orðin frá 2016 og gefið allar launahækkanir sínar til góðgerðarmála, alls um 12 milljónir króna að því er fram kemur í frétt Hringbrautar um málið. Auk þess hefur hann óskað eftir því að laun hans verði fryst til ársins 2021 og við því hefur verið orðið.
Forsaga málsins er sú að í nóvember 2016 ákvað Kjararáð að hækka laun æðstu ráðamanna þjóðarinnar verulega, þar á meðal laun forsetans um hálfa milljón á mánuði. Strax eftir að þessi hækkun var tilkynnt sagði Guðni að hún myndi ekki renna í hans vasa heldur myndi hann gefa hana til góðgerðarmála. „„Ég bað ekki um þessa kauphækkun og vissi ekki af henni. Ég þarf ekki þessa kauphækkun,“ sagði hann þá.
Við það hefur hann staðið og staðfestir Örnólfur Thorsson, forsetaritari, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins og Hringbrautar um stöðu málsins nú nýverið, að fyrirkomulagið sé enn óbreytt. „Þegar kjararáð heitið hækkaði laun forseta umtalsvert haustið 2016 hafði forseti enga vitneskju um að það stæði til. Hann lét þau orð falla þá að hann hefði ekki beðið um þessa hækkun, þyrfti ekki þessa hækkun og mundi því láta hana renna annað. Þetta er óbreytt,“ segir forsetaritari.
Ekki kemur fram í svari forsetaritara um hvaða góðgerðarsamtök er að ræða en ljóst er að forsetinn er maður orða sinna og sönn fyrirmynd fyrir aðra háttsetta embættismenn þjóðarinnar.