Ekkert lát virðist vera á mygluðum skólum í Reykjavík.
Tæplega helmingur nemenda Hólabrekkuskóla þarf að mæta í Grafarvog til að geta sinnt námi sínu en börnin sem ganga í Hólabrekkuskóla eru flest úr Breiðholti. Verður nemendum í 6. til 10. bekk ferjað í Korpuskóla í Grafarvogi með rútum. Ástæða þess eru mygluskemmdir í Hólabrekkuskóla.
„Við vorum svo heppin að fá að fara yfir í Korpuskóla. Við erum í fjórum húsum og það er verið að taka tvö hús í gegn núna,“ sagði Lovísa Guðrún Ólafsdóttir, skólastjóri Hólabrekkuskóla, í samtali við mbl.is, um málið.
„Þetta byrjaði síðasta haust. Það sprakk rör í kjallara í húsnæðinu og það myndaðist raki í einni álmunni. Í kjölfar þess voru fleiri rými skoðuð og það kom í ljós að það væru rakaskemmdir á fleiri stöðum og þá fór boltinn að rúlla,“ sagði Lovísa.
„Það var tekin ákvörðun í vor, að það ætti að fara í þessar framkvæmdir. Þá var Korpuskóli akkúrat að losna og það voru engin húsnæði í nágrenninu sem gátu verið góður kostur. Þá ákváðu svið Reykjavíkurborgar að við myndum fá Korpuskóla,“ en talið er að framkvæmdirnar í Hólabrekkuskóla muni taka nokkur ár.