Það gæti verið stutt í næsta eldgos samkvæmt Þorvaldi Þórðarsyni, eldfjallafræðingi.
Íslendingar gætu þurft að lifa við annað eldgos með stuttu millibili má marka Þorvald Þórðarsson, eldfjallafræðing, en hann telur að það sé stutt í gos í Öskju.
„Þá er þetta sem við erum að tala um bara á leiðinni. Ef hitinn í Víti er farinn að hækka svona mikið þá þýðir það að það er komin kvika þarna inn miðað við hvernig landbreytingin hefur verið,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, í samtali við mbl.is fyrr í dag. Þá hefur land risið í Öskju um 30 sentímetra frá því september.
„Það er engin önnur ástæða en sú að það er eitthvað að hita upp grunnvatnið þarna. Allur jarðhiti er búinn til með hitastreymi frá kviku. Ef hitastigið eykst þá ertu búinn að fá eitthvað heitara inn. Þetta hlýtur að vera á tiltölulega grunnu dýpi því að jarðhitavatnið er ekki að fara marga kílómetra niður í jarðskorpuna.“
„Þessar vísbendingar virðast allar benda í sömu áttina það er að Askja sé að undirbúa sig. Við þurfum greinilega að fylgjast vel með hitastiginu. Ef það er kominn af stað órói í fjallinu þá getur það farið í gos einn, tveir og þrír. Við verðum allavega að vara fólk við því,“ en Þorvaldur hefur biðlað til stjórnvalda að svæðinu verði lokað og bent á að það gæti orðið stórslys ef fólk væri á svæðið hæfist gos.