Askja hefur verið að bæra á sér að undanförnu eftir langt hlé og eru flestir sérfræðingar á því að gos sé yfirvofandi. Skiptar skoðanir hafa þó verið á tegund væntanlegs goss. Kristín Jónsdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands telur til að mynda líklegra að um hraungos verði að ræða en Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur er meira á því að gosið verði sprengigos. En hvað þýðir það ef komandi Öskjugos verður sprengigos?
Askja gaus alls átta sinnum á síðustu öld, síðast árið 1961 en öll hin gosin urðu á þriðja áratugnum: 1921, 1922 (tvö gos), 1923, 1924, 1927 og 1929. Öll voru gosin nokkuð smávægileg en það sama má alls ekki segja um Öskjugosið þann 29. mars árið 1875.
Samkvæmt eldgos.is er Öskjugosið 1875 talið stærsta öskugos á Íslandi á sögulegum tíma en það stóð þó ekki í nema nokkra klukkustundir. Sautján jarðir á Jökuldal lögðust í eyði vegna vikur- og öskufalls og orsakaði það harðindakalfa á Austurlandi. Varð það til þess að fjöldi Austfirðinga flutti til Vesturheims. Danir sáu aumur á Austfirðingum og efndu til fjársöfnunar til að koma í veg fyrir hungursneyð. Gosefnin úr Öskjugosinu eru talin hafa numið 3—4.000.000.000 rúmmetrum.
Fram kemur á eldgos.is að ógnvænlegur gosmökkur hafi lagst yfir Austurland, allt frá Héraði og til Berufjarðar. Menn sáu varla handa sinna skil vegna þruma og eldinga sem fylgdu gosinu og heitir vikumolar á stærð við tennisbolta féllu tugum kílómetra frá eldstöðinni. Vikulagið mældist allt að 20 cm þykkt á Jökuldalnum eftir gosið.
Ástæða fyrir þessum hamförum, samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands, hefur verið útskýrð þannig að basaltgangur hafi komist í snertingu við svokallaðan súran gúl undir eldstöðinni og það valdið sprengivirkninni. Talið er að þessar aðstæður séu fyrir hendi í nokkrum eldstöðvum Íslands, meðal annars í Kötlu.