„Ég held við búum okkur undir það versta, en búumst við því besta,” sagði Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðar- og ferðamálaráðherra sagði ekki tímabært að hún tjái sig um málið eins og staðan er núna.
„Þetta er félag á markaði með stjórn og stjórnendur. Ábyrgð þeirra er mikil. Þau eru með ærið verkefni í fanginu. Þau eru að reyna að leita leiða til að finna út úr því. Á meðan svo er þá er ekkert sem ég get sagt um þá stöðu.“
Í samtali við RÚV fyrr í dag sagði Jón Þór viðbúið að níutíu prósentum starfsfólks Icelandair yrði sagt upp störfum fyrir næstu mánaðamót.
Í dag eru 92% starfsmanna á hlutabótaleiðinni, það er í skertu starfshlutfalli og fá að hluta til atvinnuleysisbætur. Aðrir hafa tekið á sig launaskerðingu, til að mynda flugmenn.
„Það er náttúrulega vont fyrir fólk að bíða vegna þess að það er ekki búið að segja neinum hverjir fá uppsagnarbréf. Þetta er stór hópur sem vinnur á hinum ýmsu sviðum fyrirtækisins,“ segir Jón Þór.
Jón Þór segir það skrýtið ef ríkisstjórnin ætli ekki að verja störf í flugi. Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.